Drepnar eftir birtingu á samfélagsmiðlum

AFP

Tvær unglingsstúlkur voru myrtar af ættingjum sínum í vikunni í Norðvestur-Pakistan í kjölfar myndskeiðs sem var dreift á netinu. Um svonefnd heiðursmorð var að ræða en þau hafa verið bönnuð með lögum í Pakistan frá árinu 2016.

Samkvæmt frétt BBC voru stúlkurnar skotnar til bana af nánum ættingjum í síðustu viku í þorpi í Waziristan-héraði. Tveir menn voru handteknir í tengslum við morðin í gær, faðir annarrar stúlkunnar og bróðir hinnar. 

Að sögn lögreglu hafði myndskeið með stúlkunum, sem voru 16 og 18 ára gamlar, ásamt ungum manni farið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Myndskeiðið er tekið upp af unga manninum og auk hans sjást þrjár stúlkur á upptökunni. Í ljós kom að myndskeiðið var tekið upp fyrir um ári en aðeins nokkrar vikur eru síðan það hafnaði á samfélagsmiðlum. 

Lögreglan segir lykilatriði að tryggja að þriðja stúlkan og maðurinn verði ekki einnig myrt af fjölskyldum þeirra. Talið er að um eitt þúsund slík morð, það er „heiðursmorð“, séu framin í Pakistan á hverju ári.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert