Dýrkeypt að hunsa leiðbeiningar

António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

Lönd sem hunsa leiðbeiningar WHO hvað varðar kórónuveiruna láta heiminn gjalda þess dýru verði, segir aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres. Hann ávarpaði allsherjarþing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem hófst í dag og fer í fyrsta skipti fram rafrænt vegna COVID-19-heimsfaraldursins.

Guterres segir að ólík lönd hafi fylgt öðrum, stundum mótsagnakenndum, leiðbeiningum og þetta sé dýrkeypt fyrir alla. 

Einn þeirra sem hefur ávarpað þingið í morgun er forseti Kína, Xi Jinping. Hann segir að Kína muni leggja tvo milljarða Bandaríkjadala í aðstoð vegna COVID-19 á næstu tveimur árum. Kína styðji fjölbreyttar aðgerðir í heiminum í baráttunni við kórónuveiruna. 

Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. AFP

Xi segir að kínversk yfirvöld hafi alltaf stutt gagnsæja, opna og ábyrga umræðu og viðbrögð við veirunni. Eitt helsta umræðuefni þingsins er kórónuveirufaraldurinn og viðbrögð þjóða við honum. 22 ríki skrifuðu undir tillögu um slíka rannsókn að undirlagi Evrópusambandsins.

Hér er hægt að fylgjast með streyminu 

Bæði bandarísk og áströlsk yfirvöld hafa áður hvatt til þess að uppruni veirunnar yrði rannsakaður. Bæði forseti og utanríkisráðherra Bandaríkjanna hafa sakað Kína um leynd varðandi málið og ítrekað talað um kenningu um að veiran hafi átt upptök sín í rannsóknarstofu í Wuhan. Flestir vísindamenn telja aftur á móti að veiran hafi átt upptök sín í dýrum áður en hún smitaðist í menn. 

mbl.is