Feðgar handteknir í tengslum við flótta Ghosn

Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri Nissan, flúði með dul­ar­full­um hætti frá …
Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri Nissan, flúði með dul­ar­full­um hætti frá Tókýó til Beirút í Líb­anon í lok síðasta árs. AFP

Bandarískir feðgar hafa verið handteknir, grunaðir um að hafa aðstoðað Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóra bílaframleiðandans Nissan, að flýja úr stofufangelsi í Tókýó í Japan til Beirút í Líbanon í lok síðasta árs.

Ghosn er sakaður um skattsvik, að hafa ekki gefið rétt­ar upp­lýs­ing­ar um laun sín og fyr­ir að hafa notað eign­ir fyr­ir­tæk­is­ins til per­sónu­legra nota utan vinnu­tíma. Hann var upp­haf­lega hand­tek­inn í Tókýó 19. nóv­em­ber 2018 og ákærður fyr­ir fjár­mála­m­is­ferli. Þann 6. mars í fyrra var hon­um sleppt gegn trygg­ingu en hand­tek­inn aft­ur í byrj­un apríl vegna nýrra saka. Hann var fljót­lega eft­ir það lát­inn laus gegn trygg­ingu og sat í stofufang­elsi frá þeim tíma, allt þar til hann flúði til Líb­anon í lok síðasta árs. 

Flóttinn er hulin ráðgáta en Wall Street Journal segist hafa heimildir fyrir því að Ghosn hafi komið um borð í flug­vél í Osaka í stóru boxi ætluðu fyr­ir hljóðbúnað en boxið fannst síðar um borð í vél­inni. 

Michael Taylor og sonur hans, Peter Taylor, voru handteknir í Bandaríkjunum og gert að koma fyrir alríkisdómara í Massachusetts í kvöld gegnum fjarfundabúnað. 

Michael Taylor er fyrrverandi liðsmaður sérsveitar bandaríska hersins en hefur sinnt öryggisvörslu síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert