Fleiri smit ekki verið tilkynnt frá upphafi faraldursins

Faraldurinn breiðist einna hraðast út í Brasilíu þessa dagana. Yfir …
Faraldurinn breiðist einna hraðast út í Brasilíu þessa dagana. Yfir 1.000 dauðsföll af völdum COVID-19 voru tilkynnt þar í landi síðasta sólarhring og hafa aldrei verið fleiri. AFP

Á sama tíma og kórónuveirufaraldurinn er í rénun í stórum hluta Evrópu og Asíu er hann enn að vaxa á heimsvísu. 106 þúsund ný smit voru staðfest síðasta sólarhringinn samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og hafa ekki verið fleiri frá því faraldurinn braust fyrst út í Kína í lok síðasta árs. 

Tveir þriðju smitanna koma frá fjórum ríkjum, að því er fram kom í máli Tedros Adhanom Ghebreysus, yfirmanns WHO, á blaðamannafundi í dag. 

Heildarfjöldi smita á heimsvísu nálgast óðum fimm milljónir og yfir 325 þúsund hafa látist af völdum COVID-19 á innan við hálfu ári. Þrjá fjórðu dauðsfallanna má rekja til Evrópu og Bandaríkjanna. Af þeim sem hafa smitast hafa 1.827.200 náð fullum bata. 

Langflest tilfelli hafa verið greind í Bandaríkjunum, rúmlega 1,5 milljónir, en þar á eftir koma Rússland með 308 þúsund tilfelli, Brasilía með 271 þúsund tilfelli og Bretland með 250 þúsund.

mbl.is