Loka baðströndum að nýju

Baðströndum þriggja franskra bæja verður lokað í dag aðeins nokkrum dögum eftir að þær voru opnaðar að nýju eftir tveggja mánaða lokun vegna kórónuveirunnar. Ástæðan er sú að allt of margir hunsa reglur varðandi fjarlægð milli manna.

Yfirvöld í bæjunum þremur á Bretagne segja að það hafi verið íbúar sem óskuðu eftir því að ströndunum yrði lokað vegna þess að þeir óttuðust ágang ferðamanna á morgun, uppstigningardag, sem er almennur frídagur í Frakklandi.

Hundruð baðstranda í Frakklandi voru opnuð að nýju um síðustu helgi þannig að þar er nú heimilt að skokka, synda og veiða. Á flestum þeirra er bannað að liggja í sólbaði eða koma saman og snæða vegna hættu á að tveggja metra reglunni verði ekki fylgt. 

AFP

Héraðsstjóri Morbihan segir að ströndum bæjanna Damgan, Billiers og Erdeven verði lokað síðdegis vegna óviðunandi hegðunar strandgesta um síðustu helgi. Þeir hafi virt tveggja metra regluna að vettugi og hópast saman í nokkrum hópum.

Í kjötvinnslu í bænum Cotes d'Armor á Bretagne hafa yfir eitt þúsund starfsmenn verið sendir í sýnatöku eftir að starfsmaður hennar var lagður inn á gjörgæsludeild með kórónuveiruna. Það sem af er hafa 69 starfsmenn greinst með veiruna og eru í einangrun heima.

Frá því byrjað var að draga úr hömlum í Frakklandi á mánudag hafa átta ný hópsmit verið tilkynnt, helmingur þeirra á dvalarheimilum í austurhluta landsins þar sem fyrstu kórónuveirusmitin greindust.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert