SAS andæfir tómum miðsætum

Stjórnendur SAS telja norskar reglur um auð miðsæti aðeins geta …
Stjórnendur SAS telja norskar reglur um auð miðsæti aðeins geta gilt innan landamæra Noregs, ekki í millilandaflugi. SAS

Frá 28. apríl hafa norsk stjórnvöld, ein stjórnvalda í heiminum að sögn ríkisútvarpsins NRK, gert þá kröfu til flugfélaga landsins að þau fljúgi með miðsætin tóm í þriggja sæta röðum flugvéla sinna og kom nýlega upp mál í tengslum við þessa reglu þegar heilbrigðisráðherra Noregs ferðaðist með flugi Norwegian þar sem fyrirmælin voru ekki í heiðri höfð.

Stjórnendur skandinavíska flugfélagsins SAS í Noregi láta miðsætisregluna yfir sig ganga í innanlandsflugi en segjast hins vegar láta hana sem vind um eyru þjóta í öllu alþjóðlegu flugi þar sem þar gildi norskar innanhússreglur ekki.

„Það passar og við ætlum okkur ekki að nota þetta fyrirkomulag í millilandaflugi frekar en önnur flugfélög heimsins nema reglunum um flug milli landa verði þá breytt,“ segir John Eckhoff, upplýsingafulltrúi SAS í Noregi, við NRK.

Í dag komu einmitt út nýjar verklagsreglur um flug innan Evrópu frá Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, EASA. Deila höfundar reglnanna þar ýmsum heilræðum, svo sem notkun andlitsgríma, takmörkun á allri þjónustu og veitingum, handþvotti farþega sem áhafnar, eins lítilli snertingu við innréttingar flugfars og hægt er auk þess sem meira að segja er tekið fram að áhöfn skuli bæta því við öryggisfyrirlesturinn í upphafi flugs að komi til notkunar súrefnisgríma skuli farþegar taka Covid-grímuna af sér áður en súrefnisgríman er sett upp.

Hvergi er hins vegar minnst á auð miðjusæti í nýju reglunum sem áhugasamir geta lesið hér.

SAS flýgur um þessar mundir hvort tveggja til London og nokkurra áfangastaða á Spáni. „Flugumferðin er alþjóðleg og SAS er alþjóðlegt félag. Eðlilegt er að við fylgjum því sem teljast viðurkennd vinnubrögð í evrópsku flugi og verða vafalaust tímabundnar reglur nú fyrst um sinn. Síst minnkar nauðsyn þess nú þegar breytingar á ferðahömlum margra landa eru í burðarliðnum,“ segir Eckhoff enn fremur.

Geta aðeins notað hálfar vélar

Til eru þó flugfélög sem koma verr út úr millisætabanninu en SAS og Norwegian sem geta þó notað 66 prósent sætisrýmis véla sinna. Í þeim hópi má nefna flugfélagið Widerøe sem notar minni vélar, svo sem Dash-8, sem aðeins hafa tvö sæti hvoru megin gangsins. Í þeim vélum nýtist aðeins helmingur sætanna meðan reglur norskra stjórnvalda gilda.

„Afleiðingin verður sú að það er ekki hægt að stunda flugrekstur sem borgar sig í Noregi,“ segir Stein Nilsen, forstjóri Widerøe, við NRK og bætir því við að vegna þessa verði engum flugferðum bætt við í sumar nema þeim sem séu bráðnauðsynlegar til að standa undir auknum ferðalögum Norðmanna innanlands sem þó má reikna með að verði umtalsverð í ljósi eindreginna tilmæla Ernu Solberg forsætisráðherra um að Norðmenn verði heima hjá sér til 20. ágúst.

Farþegaþotur SAS á Gardermoen-flugvellinum utan við Ósló í Noregi. Þar …
Farþegaþotur SAS á Gardermoen-flugvellinum utan við Ósló í Noregi. Þar er fámennt nú um stundir. AFP

Nilsen segir að eðlilegast væri að Widerøe fylgdi reglum Evrópusambandsins í millilandaflugi. „En við vonum og reiknum með að norsk stjórnvöld kjósi að samræma sínar ráðleggingar þannig að eitt gangi yfir alla flugumferð innan Evrópu, enda hefur Evrópusambandið hvatt ríki Evrópu til að fara þá leið.

Flugmálastofnun Noregs hefur látið í veðri vaka að reglur Evrópusambandsins verði að bjóða upp á sveigjanleika gagnvart þeim reglum sem einstök lönd hafa sett sér þar sem kórónuástand sé ólíkt milli landa.

„Við höfum rætt um það að engar rannsóknir hafa sýnt fram á að andlitsgrímur hafi nokkuð að segja fyrir fólk sem er einkennalaust og notkun grímanna komi ekki í staðinn fyrir bil á milli fólks,“ segir Nina B. Vindvik, lögfræðingur Flugmálastofnunar, við ríkisútvarpið.

NRK

NRKII

Aftenposten (flogið með Norðmenn frá Spáni í stappfullum vélum)

mbl.is

Bloggað um fréttina