31 hagl í norskum ketti

Þeim Strandheim og Birkeland varð felmt við er þær sáu …
Þeim Strandheim og Birkeland varð felmt við er þær sáu hvers kyns var á röntgenmynd sem tekin var af Adonis á dýraspítalanum. Í honum sat 31 hagl, þar af 20 í höfði hans. Málið hefur verið kært til lögreglu. Röntgenmynd/Dýraspítali í Þrændalögum

Kettinum Adonis var nýlega komið til kattaathvarfsins Potespor i hjertet, eða Loppuför á hjartanu, á Kyrksæterøra í Þrændalögum í Noregi. Kona nokkur kom með Adonis í athvarfið og afhenti hann eigendum þess, Tinu Strandheim og Ninu Lien Birkeland, með þeim upplýsingum að eigendur hans hefðu flutt fyrir mörgum árum og skilið þetta gamla gráa fress eftir í reiðileysi.

Fljótlega varð ljóst að ekki var allt með felldu hjá þeim gráa, hann bar ýmsa áverka og var hægra auga hans meðal annars skaddað. Þær Strandheim og Birkeland fóru því með þennan nýja skjólstæðing sinn til dýralæknis sem byrjaði á að taka af honum röntgenmynd.

Kom þá óhugnanlegur sannleikurinn í ljós. Adonis var fullur af höglum, í honum taldi læknirinn alls 31 hagl, þar af 20 í höfuðkúpunni, og má nánast telja kraftaverk að Adonis sé á lífi, nema þjóðsagan um lífin níu eigi þá við rök að styðjast.

Auðvelt að missa trúna á fólk

Engu var líkara en einhver ógæfumaður, eða -menn, hefði hreinlega notað dýrið sem skotskífu. „Fyrst urðum við öskureiðar. Hver ber ábyrgð á þessu? Á sama tíma urðum við sorgmæddar. Við skildum þjáningar hans,“ segir Strandheim við norska ríkisútvarpið NRK.

Síðan þær Birkeland stofnuðu Loppuförin árið 2015 hefur hundruð nauðstaddra katta rekið á fjörur þeirra. „Þetta er skelfilegt. Aldrei áttum við von á að fá til okkar kött sem hefur verið hafður að skotspæni. Það er auðvelt að missa trúna á fólk þegar maður sér að svona hlutir gerast,“ segir Strandheim enn fremur og bætir því við að það fólk finnist sem þyki sjálfsagt að skjóta flækingsketti.

Á miðvikudag kærðu þær stöllur athæfið til lögreglu án þess að búast við mikilli rannsókn. „Við vonum bara að sá sem gerði þetta lesi fréttina og skaði ketti aldrei aftur,“ segir Strandheim.

Adonis hefur greinilega marga fjöruna sopið á sinni hunds- og …
Adonis hefur greinilega marga fjöruna sopið á sinni hunds- og kattartíð en að sögn konu sem kom með hann í athvarfið fluttu eigendur hans fyrir mörgum árum og skildu hann eftir. Adonis er nú í öruggum höndum og hefur verið búið áhyggjulaust ævikvöld. Ljósmynd/Nina Lien Birkeland

Kaja Efskind, upplýsingafulltrúi dýraverndarsamtakanna Dyrevernalliansen, segir atvikið ekki koma á óvart, starfsfólk þar sjái reglulega ketti sem skotnir hafi verið, hvort tveggja með hagla- og loftbyssum.

„Þeir sem gera svona lagað eru algjörlega lausir við samkennd. Sumir hafa svona lagað sem sjúklega dægradvöl eða þeim er illa við dýr. Aðrir ganga ekki heilir til skógar. Hvað sem það nú er þurfa þeir sem gera þvíumlíkt eftirfylgni,“ segir Efskind og vonar að lögreglan setji málið í forgang.

Líklega heyrnarlaus

Refsirammi fyrir dýraníð er samkvæmt norskum dýraverndarlögum þriggja ára fangelsi. Slíkan dóm hefur þó enn sem komið er enginn hlotið í Noregi.

Adonis er nú kominn í fóstur á heimili Birkeland í Þrándheimi og hefur þar eigið herbergi út af fyrir sig sem vafalítið er honum nýlunda miðað við feril hans síðustu ár. „Hann hreyfir sig, klifrar og horfir út um gluggann og í dag borðaði hann úr hendi Ninu sem sýnir að hann hefur haft eiganda áður fyrr,“ segir Strandheim.

Reyndar er Adonis líklega heyrnarlaus en að lokinni læknismeðferð segja þær hann þó verkjalausan um þessar mundir. „Það er gott að hugsa til þess að hann fái að eiga náðugar stundir á ævikvöldinu,“ segir hún að lokum.

NRK

Dagbladet

Facebook-síða kattaathvarfsins Potespor i hjertet

mbl.is