Örari afléttingar verri fyrir efnahaginn

Að fara of hratt af stað getur haft neikvæðar afleiðingar …
Að fara of hratt af stað getur haft neikvæðar afleiðingar fyrir efnahaginn, en ekki góðar, eins og haldið hefur verið fram. Árni Sæberg

Kjörnir fulltrúar heimsins eiga ekki sjö dagana sæla. Þeir standa frammi fyrir tveimur meginkröfum: Að gæta að lýðheilsu þjóða sinna en um leið að varna því að efnahagurinn hrynji. Við fyrstu sýn virðast þetta vera tvö andstæð sjónarmið sem togist kröftuglega á; því færri smit, því verri efnahagur og því örari afléttingar takmarkana (með tilheyrandi fjölgun smita), því betri efnahagur. 

Þetta er ekki öfundsverð staða en góðu fréttirnar fyrir stjórnmálamenn, þar á meðal fyrir íslenska, eru að þetta er ekki svona svart og hvítt. Raunin er sú að það er hvorki best fyrir efnahaginn að aflétta öllum takmörkunum hið snarasta né er það best fyrir lýðheilsu að halda þeim til eilífðarnóns, alltént ef marka má nýja rannsókn.

Hagfræði- og stjórnmálafræðileg rannsókn á vegum hins þýska Ifo Instituts og Helmholtz-miðstöðvarinnar í sýkingarannsóknum bendir til þess að æskilegasta efnahagslega ráðstöfun sem stjórnvöld geti gert er að fara milliveginn, sem sagt hvorki of hratt né of hægt, í afléttingu samkomutakmarkana. Mjótt er mundangshófið, en það virðist líka vera best, eins niðurstöður rannsóknar þessarar benda til.

Súlurnar sýna heildarkostnað sem hlýst af ólíkt háum smitstuðlum R. …
Súlurnar sýna heildarkostnað sem hlýst af ólíkt háum smitstuðlum R. Ef hver smitaður einstaklingur fær ekki að smita nema 0,1 annan einstakling verður heildarkostnaður sem hlýst af sóttvarnaráðstöfununum 9,2% af vergri landsframleiðslu Þjóðverja 2020 og 2021. Ef hver smitaður smitar 0,75 aðra (hinn gullni meðalvegur) verður kostnaðurinn aðeins 4,6%. Skjáskot/Ifo Institut

Þetta graf er sótt í rannsóknina, sem ber titilinn „Sameiginlegir hagsmunir heilsu og efnahagslífs“. Það sýnir hvernig frávik í báðar áttir frá hinum gullna meðalveg er slæmt fyrir efnahaginn. Rannsóknin miðar við þýsk gögn en niðurstöðurnar hafa almenna skírskotun.

R-stuðullinn, það sem er í lóðréttu röðinni, er lýsandi fyrir hve strangar sóttvarnaráðstafanirnar eru. Ef þær eru í strangasta lagi er efnahagslegur kostnaður mestur. Hann lækkar svo eftir því sem þær eru vægari en aðeins upp að vissu marki: Í R=0,75 verður hann minnstur en ef aðgerðum er aflétt svo að enn fleiri smitist en 0,75 á hvern einstakling, fer kostnaðurinn aftur að hækka.

Það veldur með öðrum orðum minni efnahagslegum skaða að aflétta samkomutakmörkunum hóflega en um leið og afléttingarnar ganga of langt verða áhrifin öfug. Þær verða skaðlegar fyrir efnahaginn.

Of hröð aflétting óæskileg frá báðum sjónarhornum

„Niðurstöður okkar benda til þess að vægar afléttingar takmarkananna, sem teknar eru skref fyrir skref, séu sú leið út úr faraldrinum sem hefur minnstan kostnað í för með sér fyrir efnahagslífið,“ segir í rannsókninni. „Þegar kemur að ótímabærum afléttingum takmarkana togast efnahagslegur og lýðheilsulegur kostnaður ekki á sem andstæðir þættir, heldur er of hröð aflétting (sem leiðir til R=>1) óæskileg frá báðum sjónarhornum.“

Fyrir efnahaginn væri það samkvæmt rannsókninni slæmt að fá fram seinni bylgju faraldursins í kjölfar of örra afléttinga; tiltrú fjárfesta og neytenda myndi minnka með tilheyrandi neysluminnkun. Út frá lýðheilsusjónarmiðum væri á hinn bóginn heldur ekki gott að afléttingar væru of hægar, enda leiðir slíkt ástand til heilsufarslegs vanda af ýmsum öðrum toga.

Í ljósi þessara niðurstaðna er fróðlegt að líta til nýrra tíðinda frá Svíþjóð, sem gefa til kynna að efnahagskreppa þar verði ekki endilega skárri en þar sem stigið var mun varlegar til jarðar í afléttingum takmarkana. 

Rannsóknina má lesa hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert