Enginn komst lífs af

Farþegaþota Pakistan International Airlines með um 100 manns um borð …
Farþegaþota Pakistan International Airlines með um 100 manns um borð hrapaði á íbúabyggð nærri alþjóðaflugvellinum í pakistönsku borginni Karachi í morgun. AFP

Enginn komst lífs af þegar farþegaþota Pakistan International Airlines með um 100 manns um borð hrapaði íbúabyggð nærri alþjóðaflugvellinum í pakistönsku borginni Karachi.

Til viðbótar eru að minnsta kosti átta látnir sem voru í íbúahverfinu þar sem þotan brotlenti. Þetta segir Seemin Jamali, yfirmaður lækninga á háskólasjúkrahúsi í borginni. 

„Þetta eru allt vegfarendur, engir farþegar hafa verið flutti hingað á sjúkrahúsið,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Talsmaður flugfélagsins segir að vélin hafi misst allt samband við flugumferðastjórn um klukkan 14:30 að staðartíma, eða um klukkan 9:30 að íslenskum tíma. Hermenn sem voru á æfingu í nágrenninu eru á meðal fjölmenns björgunarliðs sem er enn að störfum á vettvangi. 

Flugmennirnir óskuðu eftir aðstoð skömmu áður og að sögn innanríkisráðherra Pakistans var um tæknilega örðugleika að ræða en vélin hafði til að mynda misst afl á tveimur hreyflum. 

Um 100 manns voru um borð í vélinni og eru …
Um 100 manns voru um borð í vélinni og eru þeir allir taldir af. AFP

Íbúar í hverfinu þar sem flugvélin hrapaði lýsa því hvernig allt nötraði og skalf áður en flugvélin skall á byggðinni með miklum hvelli. „Ég var að koma úr moskunni þegar ég sá vélina halla. Hljóðið í vélinni var einnig skrítið. Hún flaug svo lágt að veggirnir í íbúðinni minni nötruðu,“ segir Hassan, 14 ára, sem sá vélina hrapa. 

Imran Khan, forsætisráðherra landsins, segist vera í áfalli vegna slyssins og er hugur hans hjá aðstandendum þeirra sem létu lífið. Hann hefur sett sig í samband við forstjóra flugfélagsins.mbl.is