Framburður réð úrslitum

Tony Hadley, söngvari Spandau Ballet.
Tony Hadley, söngvari Spandau Ballet.

Dómarar í spurningakeppni sem haldin var á útvarpsstöð í Singapúr töldu að þátttakandi í keppninni hefði borið nafn söngvara Spandau Ballet vitlaust fram og því fengi hann ekki verðlaunin þrátt fyrir að vera með rétt nafn. Útvarpsstöðin hefur hins vegar ákveðið að greiða keppandanum út verðlaunin þar sem söngvarinn segir framburðinn hárréttan.

Þegar keppandanum, Muhammad Shalehan, var synjað um verðlaunin, 10 þúsund Bandaríkjadali, rúmlega 1.400 þúsund krónur, þar sem dómararnir töldu hann bera nafn Tony Hadley vitlaust fram, sendi Hadley myndskeið til stuðnings Shalehan og sagði framburðinn réttan.

Stjórnendur útvarpsstöðvarinnar héldu fast við ákvörðun dómara en í morgun varð skyndilega breyting þar á og í dag var gefin út tilkynning af hálfu stjórnenda Gold 905 þar sem Shalehan var beðinn afsökunar og honum afhent verðlaunaféð að því er segir í frétt BBC.

„Þar sem Tony Hadley segir að Shalehan hafi borið nafn hans rétt fram — hvernig getum við mótmælt,“ segir á Facebook-síðu stöðvarinnar. 

Shalehan, þriggja barna faðir og það fjórða á leiðinni, segir í viðtali við BBC að hann sé bæði ánægður og í áfalli. „Mér hefði ekki tekist þetta án aðstoðar Tony Hadley,“ segir hann.

En um hvað snerist málið? 

16. mars hóf útvarpsstöðin Gold 905, sem er í eigu fjölmiðlasamsteypu í Singapúr, spurningakeppni sem snerist um nöfn þekkst fólks. Þátttakendur þurftu að bera kennsl á fjórtán þekkta einstaklinga sem allir sögðu eina setningu: Gold 9-0-5 stöðin sem hljómar vel og lætur þér líða vel.

Afar erfiðlega gekk fyrir þátttakendur að þekkja raddirnar 14 en með því að hlusta á svör annarra fóru púslin að raðast upp. Shalehan hringdi mörg hundruð sinnum og komst í tvígang í gegn en náði ekki að svara rétt. Loksins 21. apríl tókst honum að svara öllum 14 rétt en sagt að hann hefði fengið 13 stig. Síðan hringdi annar keppandi 6. maí og var með nákvæmlega sama svar og fékk 10 þúsund dali að launum.

Þegar Shalehan grennslaðist fyrir um hverju sætti var honum tjáð að framburður hans á nafni Tony Hadley hafi ekki verið réttur. Þegar stjórnendur stöðvarinnar daufheyrðust kvartanir Shalehan ákvað hann að taka málin í sínar hendur og hafði upp á umboðsmanni Hadleys á netinu og sendi honum tölvupóst. 

Hrósaði Shalehan fyrir framburðinn

Shalehan til mikillar undrunar svaraði Hadley bréfinu með myndskilaboðum þar sem hann hrósaði Shalehan fyrir framburðinn. Framburðurinn er kannski ekki fullkominn en nánst. Þú ert að bera nafnið mitt rétt fram. Shalehan sendi útvarpsstöðinni myndskeiðið en fékk ekkert svar. Það var hins vegar í gær að BBC hafði samband við útvarpsstöðina og bar málið undir stjórnendur að haft var samband við Shalehan og honum boðnir fimm þúsund dalir en því haldið fram að framburðurinn væri rangur.

Shalehan veitti ekki af fénu, fjölskyldan að stækka og hann ekki á háum launum sem járnbrautastarfsmaður, en ákvað samt að þiggja ekki fimm þúsund dalina. „Ég er ekki á höttum eftir peningunum.“ „Ég vil að réttlætið nái fram að ganga. Jafnrétti og að allrar sanngirni sé gætt í leiknum,“ bætti hann við. 

Að lokum ákvað útvarpsstöðin að endurskoða málið og greiða honum 10 þúsund dali í dag. Shaliman var jafnframt beðinn afsökunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert