Mannabein á dönsku byggingarsvæði

Mannabeinin fundust í hrúgu þar sem framkvæmdir standa nú yfir …
Mannabeinin fundust í hrúgu þar sem framkvæmdir standa nú yfir við byggingu nýja náttúrusögusafnsins í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Umferðarstofa/Vejdirektoratet

Fornleifafræðingar í Kaupmannahöfn komust í feitt þegar verktakar við byggingu nýja náttúrusögusafnsins, sem verður við hlið grasagarðs borgarinnar, Botanisk Have í Indre by, fundu þar aragrúa mannabeina í jörðu þar sem safnið nýja mun standa.

Telja fornleifafræðingarnir beinin vera úr tólf manneskjum. „Við höfum ekki fundið neina beinagrind í heilu lagi, beinin voru í hrúgu,“ segir Sigrid Frances Schmidt, sem stjórnar rannsókn fornleifafræðinganna, í samtali við TV2 Lorry.

Segir hún slíka beinafundi mjög fátíða nú orðið, hvað þá að fornleifafræðingar finni bein á stöðum þar sem þá grunaði ekki að slíkt væri að finna. Að minnsta kosti eitt bein hefur verið sagað í sundur og á mörgum hinna má sjá áverka, skörð og för. Schmidt telur þó eigendur beinanna ekki hafa sætt grófu ofbeldi í lifanda lífi.

Úr sjúkrahúsi eða kólerubúðum

Kenning fræðinganna er þvert á móti sú að beinin hafi komið frá skurðlækningasjúkrahúsinu Det Kongelige Kirurgiske Akademi sem rekið var í Kaupmannahöfn árabilið 1785 til 1842. „Við fundum keramikbrot innan um beinin og keramik er úr nútímanum [moderne tid, sem í danskri sagnfræði er almennt talin hefjast samhliða Napóleonsstríðunum tímabilið 1800 til 1815],“ segir Schmidt.

Framkvæmdasvæðið þar sem beinin uppgötvuðust, grasagarðurinn, Botanisk Have, í baksýn.
Framkvæmdasvæðið þar sem beinin uppgötvuðust, grasagarðurinn, Botanisk Have, í baksýn. Ljósmynd/Umferðarstofa/Vejdirektoratet

Næst á dagskrá segir hún að rannsaka hvort þarna á svæðinu hafi verið kólerubúðir sem beinin gætu tengst en kólerufaraldur geisaði í Kaupmannahöfn árið 1853 og dró um 4.800 manns til dauða. „Við vitum ekki mikið um þessi bein enn sem komið er, nú þurfum við að rýna í nokkrar skráðar heimildir,“ segir Sigrid Frances Schmidt fornleifafræðingur að lokum.

TV2 Lorry

Jyllands-Posten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert