Vildi ekki veita fjölmiðlum ánægjuna

William Clay Ford Jr., forstjóri Ford, bar grímu, ólíkt Donald …
William Clay Ford Jr., forstjóri Ford, bar grímu, ólíkt Donald Trump Bandaríkjaforseta, þegar sá síðarnefndi heimsótti verksmiðju Ford í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi grímulaus við fjölmiðla í heimsókn sinni í verksmiðju bifreiðaframleiðandans Ford í Michigan í gær, sem hefur tekið að sér framleiðslu öndunarvéla á tímum kórónuveirufaraldursins. 

Grímuskylda er í ríkinu og hvatti ríkissaksóknari Michigan Trump eindregið til að bera grímuna. Athygli vakti hins vegar að Trump hélt á grímunni þegar hann ræddi við fjölmiðla í verksmiðjunni. 

„Ég var með eina áðan, hérna í rýminu baka til, en ég vildi ekki veita fjölmiðlum þá ánægju að sjá það,“ sagði Trump og dró fram svarta andlitsgrímu til að sanna mál sitt. „Í hreinskilni sagt finnst mér ég líta betur út með grímuna,“ bætti hann við. 

Trump sagðist hafa tekið sig vel út með grímuna en …
Trump sagðist hafa tekið sig vel út með grímuna en hann vildi ekki veita fjölmiðlum þá ánægju að sjá hann með hana. AFP

Forsetinn sagðist hafa tekið af sér grímuna fyrir ræðuhöld. Aðspurður hvaða fordæmi hann væri að gefa Bandaríkjamönnum með því að vera ýmist með grímu eða ekki sagði Trump að hann hefði farið eftir öllum settum reglum og borið grímuna á svæðum þar sem til þess var ætlast. „Ég er að setja fordæmi,“ svaraði Trump einfaldlega. 

Þá segist hann ekki vera skyldugur til að bera grímu þar sem hann fer reglulega í sýnatöku, síðast í gærmorgun og reyndist sýnið neikvætt eins og öll fyrri sýni.

Hvergi hafa fleiri smitast af veirunni en í Bandaríkjunum eða rúmlega ein og hálf milljón. Næstflest smit hafa greinst í Rússlandi, rúmlega 326 þúsund, og í Brasilíu þar sem staðfest sýni eru orðin rúmlega 310 þúsund. 

mbl.is