Afhjúpaði óvart bankaupplýsingar Trump

Skjáskot/Youtube

Tilraun blaðafull­trúa Hvíta húss­ins til að vekja athygli á gjafmildi Donalds Trump Bandaríkjaforseta mistókst að einhverju leyti þegar hún sýndi óvart bankaupplýsingar forsetans í leiðinni. New York Times greinir frá þessu. 

Trump lætur laun sín fyrir forsetahlutverkið renna til verðugra málefna og tilkynna blaðafulltrúar Hvíta hússins um það hvert launin fara í hvert sinn eða fjórum sinnum á ári. Launin nema 400.000 dollurum, eða því sem nemur tæpum 60 milljónum króna, og var það kosningaloforð Trumps í kosningunum 2016 að hann myndi láta laun sín renna annað en í sinn eigin vasa.

100.000 dollara leikmunur

Á blaðamannafundi í gær tilkynnti Kayleigh McEnay, blaðafulltrúi Hvíta hússins, að Trump myndi í þetta skiptið láta laun sín renna til heilbrigðisráðuneytisins til að „styðja við aðgerðir til að berjast við og halda kórónuveirunni í skefjum“.

Til þess að sanna það sýndi McEnay launaseðil Trump en á honum mátti sjá reiknings- og útibúsnúmer forsetans. 100.000 dollara launaseðillinn sem hún hélt uppi eins og leikmun virtist vera raunverulegur launaseðill ásamt viðeigandi bankaupplýsingum. Hvíta húsið hefur í kjölfarið gefið út að aldrei séu falskir launaseðlar sýndir við þetta tilefni.

Eftir að fjölmiðlar fjölluðu um málið fordæmdi einn af talsmönnum Hvíta hússins þá fyrir umfjöllunina. 

„Í dag fóru laun forsetans í að aðstoða við þróun meðferða til að meðhöndla veiruna en fjölmiðlar fundu sér ástæður til að segja ekki bara frá staðreyndum heldur fóru að velta því fyrir sér hvort launaseðillinn væri raunverulegur.“

Mögulegt að hakka reikning með sambærilegum upplýsingum

Fyrir almennan borgara væri hægt að nota upplýsingar sem þær sem koma fram á launaseðlinum til að taka út eða leggja inn peninga, kaupa fyrir þá peninga sem eru á reikningnum á netinu eða til að brjótast inn í bankareikninginn.

„Það er ekki ákjósanlegt að deila upplýsingum sem þessum opinberlega,“ sagði Eva Velasquez, framkvæmdastjóri ITRC, samtaka sem berjast gegn þjófnaði persónuupplýsinga, í kjölfar afhjúpunar McEnay. 

„Ef fólk er ekki með sérstakar varnir er hægt að nálgast þá sjóði sem eru á bankareikningunum með þessum upplýsingum.“

Varhugaverð skilaboð send til almennings

Velasquez sagði þó nærri öruggt að banki Trumps hefði sérstakar varnir á sínum stað í tilfelli bankareiknings forsetans. Ekki væri líklegt að reikningurinn yrði hökkurum að bráð vegna ljósmynda sem dreifðust um alnetið í kjölfar afhjúpunar McEnay. 

Velasquez benti þrátt fyrir allt á að afhjúpunin sendi varhugaverð skilaboð til almennings. „Það er mikilvægt að setja gott fordæmi í þessum aðstæðum. Það skiptir miklu máli að meðalmanneskjan skilji að hún ætti ekki að fara eftir fordæmi blaðafulltrúans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert