„Allir voru að reyna að lifa af“

Þotan hrapaði til jarðar í íbúðahverfi.
Þotan hrapaði til jarðar í íbúðahverfi. AFP

Annar þeirra tveggja sem lifðu af flugslysið í Karachi í Pakistan í gær, þar sem að minnsta kosti 97 manns fórust, lýsir því hvernig hann stökk frá brennandi flaki farþegaþotunnar eftir að hún hafnaði í íbúðarhverfi í borginni.

Þotan, sem var á vegum Pakistan International Airlines, hrapaði til jarðar eftir að báðir hreyflarnir hættu að virka.

Þeir 97 sem létust voru allir um borð í vélinni en fjórir á jörðu niðri slösuðust. Áður höfðu fregnir verið fluttar af dauðsföllum fólks sem ekki var um borð.

„Eftir að vélin brotlenti og ég komst aftur til meðvitundar sá ég eld alls staðar og enginn annar var sjáanlegur,“ segir farþeginn Mohammad Zubair á sjúkrabeði sínum í myndskeiði sem farið hefur um samfélagsmiðla í landinu.

„Ópin voru allt um kring og allir voru að reyna að lifa af. Ég losaði sætisbeltið mitt og sá eitthvert ljós og reyndi að ganga í átt að því. Svo stökk ég út.“

Zubair hlaut brunasár en líðan hans er stöðug, segir talsmaður heilbrigðisráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert