Lifði af síðari heimsstyrjöld og drapst í gær

Krókódíllinn Saturn drapst í gærmorgun.
Krókódíllinn Saturn drapst í gærmorgun. Ljósmynd/Moscow Zoo

Krókódíllinn Saturn, sem lifði af síðari heimsstyrjöld í miðri Berlín, drapst í dýragarðinum í Moskvu í gærmorgun. 

Saturn var 84 ára gamall. Hann var gefinn dýragarðinum í Berlín árið 1936 stuttu eftir fæðingu hans í Bandaríkjunum. Þegar dýragarðurinn eyðilagðist í sprengjuárás árið 1943 flúði Saturn, en breskir hermenn fundu hann þremur árum síðar og gáfu hann til Sovétríkjanna. Enginn veit hvaða dreif á daga Saturn þau þrjú ár sem hann var ekki í haldi neins, en frá árinu 1946 hefur hann verið vinsæll á meðal dýragarðsgesta í Moskvu. 

„Dýragarður Moskvu hefur verið þess heiðurs aðnjótandi að hafa Saturn í 74 ár,“ segir í tilkynningu frá dýragarðinum. „Við vonum að við höfum ekki valdið honum vonbrigðum.“

Kann að hafa verið elstur

Samkvæmt dýragarðinum þekkti Saturn gæslumenn sína vel, elskaði að vera nuddaður með bursta og gat auðveldlega brotið steypu og stál með tönnunum þegar hann varð pirraður. 

Saturn kann að hafa verið elsti krókódíll í heiminum, en Mississippi-krókódílar verða vanalega 30 til 50 ára úti í víðáttunni. Annar karlkyns krókódíll, Muja, sem er í dýragarði í Belgrade er einnig á níræðisaldri og enn þá lifandi. 

Hvort sem Saturn hafi verið elsti krókódíll í heimi eða ekki, eru fáir krókódílar sem hafa átt eins viðburðaríkt æviskeið. Á meðal þeirra orðróma sem gengið hafa um Saturn er að hann hafi verið gæludýr Adolfs Hitlers, sem er þó ekki rétt.

mbl.is

Bloggað um fréttina