Mikill eldur á Pier 45 í San Francisco

Eldurinn hefur nú eyðilagt um fjórðung bryggjunnar.
Eldurinn hefur nú eyðilagt um fjórðung bryggjunnar. Ljósmynd/Dan Whaley

Mikill eldur er á hinni sögufrægu bryggju „Pier 45“ í Fishermans Wharf í San Francisco. Rúmlega 150 slökkviliðsmenn reyna að ráða niðurlögum eldsins, sem hefur nú gleypt í sig um fjórðung bryggjunnar. 

Einn slökkviliðsmaður hefur verið fluttur á sjúkrahús, en samkvæmt CNN var bryggjan rýmd ásamt íbúðar- og atvinnuhúsnæði í nágrenni hennar. 

Tilkynnt var um eldinn klukkan 4.17 að staðartíma, eða um 11.17 í morgun að íslenskum tíma, en upptök eldsins voru í vörugeymslu á bryggjunni. Á suðurhluta bryggjunnar hrundi bygging og tvær aðrar byggingar standa einnig í ljósum logum.

Gististaður heimilislausra

Slökkvibátur er nýttur til að vernda hið sögufræga herskip SS Jeremiah O'Brien fyrir eldunum, en skipið var smíðað í síðari heimsstyrjöldinni. 

Ekki liggur fyrir hvort einhver var inni í vörugeymslunni þegar eldurinn kviknaði, en samkvæmt yfirvöldum nota margir heimilislausir einstaklingar geymsluna sem gististað. Yfirvöld fara nú yfir öryggismyndavélar á svæðinu til að kanna eldsupptök.
mbl.is