Talibanar lýsa yfir vopnahléi

Afganskar öryggissveitir eiga einnig að fylgja vopnahléinu, samkvæmt skipun forsetans.
Afganskar öryggissveitir eiga einnig að fylgja vopnahléinu, samkvæmt skipun forsetans. AFP

Talibanar hafa lýst yfir þriggja daga vopnahléi á meðan helgihátíðin Eid al-Fitr stendur yfir, frá og með sunnudeginum 24. maí. Ákvörðunin þykir óvænt í ljósi blóðugra átaka við afganskar öryggissveitir undanfarna mánuði.

Forsetinn Ashraf Ghani var fljótur að lýsa ánægju sinni með boð talibananna og skipaði liði sínu að fylgja vopnahléinu einnig.

Zalmay Khalilzad, sem fer fyrir samninganefnd Bandaríkjanna í landinu, segir í tísti að vopnahléið feli í sér tímamótatækifæri.

Frá því innrás Bandaríkjanna í landið hófst árið 2001 hefur aðeins eitt formlegt hlé orðið á átökunum. Það var árið 2018 og kom einnig á óvart, en var gert vegna helgihátíðarinnar Eid.

mbl.is