Forseti Austurríkis braut samkomubann

„Ef veitingastaðurinn verður fyrir tjóni vegna þessa mun ég standa …
„Ef veitingastaðurinn verður fyrir tjóni vegna þessa mun ég standa straum af því,“ sagði forsetinn. AFP

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af Alexander Van der Bellen, forseta Austurríkis, og Doris Schmidauer, eiginkonu hans, þar sem þau sátu á veitingastað eftir miðnætti í nótt en börum og veitingastöðum er óheimilt að halda dyrum sínum opnum lengur en til ellefu að kvöldi til í Austurríki. Þýski fjölmiðillinn Kurier greinir frá þessu.

Van der Bellen baðst fyrr í dag afsökunar á því að hann hefði brotið reglur um samkomubann.

„Ég fór út að borða í fyrsta sinn síðan samkomubanni var komið á, með tveimur vinum mínum og eiginkonu minni. Við spjölluðum saman og áttuðum okkur því miður ekki á því hvað tímanum leið. Þetta voru mistök og mér þykir þetta virkilega leiðinlegt,“ skrifaði forsetinn í færslu á Twitter. 

Gætu fengið sekt upp á tæpar fimm milljónir

Veitingastaðnum var lokað á tilsettum tíma en forsetahjónin sátu fyrir utan staðinn og voru að klára vínglösin sín eftir lokun. Lögregla gæti haft heimild til að sekta veitingastaðinn um 4,7 milljónir íslenskra króna vegna atviksins en Van der Bellen sagði í færslu á Twitter að hann myndi koma í veg fyrir það að veitingastaðurinn yrði fyrir miska vegna málsins. Það er þó ólíklegt þar sem staðnum hafði formlega verið lokað þetta kvöldið.

„Ef veitingastaðurinn verður fyrir tjóni vegna þessa mun ég standa straum af því.“

Lögreglan skoðar nú málið og hvort eitthvað verði aðhafst í því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert