Listi yfir látna á forsíðu: „Ómetanlegur missir“

New York Times birti á forsíðu sinni lista yfir þúsund …
New York Times birti á forsíðu sinni lista yfir þúsund einstaklinga sem hafa látist í kórónuveirufaraldrinum. AFP

Bandaríska blaðið New York Times breytir út af vana sínum í dag og í stað þess að birta fréttagreinar, ljósmyndir eða gröf er þar aðeins að finna einn langan lista. Listinn inniheldur nöfn eitt þúsund einstaklinga sem hafa látist í Bandaríkjunum af völdum Covid-19-sjúkdómsins, en blaðið gerir þetta í ljósi þess að heildarfjöldi látinna er nú að nálgast 100 þúsund í Bandaríkjunum. Eru því um 1% þeirra sem hafa látist í landinu á forsíðu blaðsins.

Auk nafnanna fylgja með upplýsingar um hvaðan fólkið var, en blaðamenn New York Times fóru í gegnum dánartilkynningar í hundruðum minni staðarmiðla til að setja listann saman. Þá er einnig tekin setning eða orð úr tilkynningunum sem voru lýsandi fyrir viðkomandi einstakling. Þannig segir til dæmis við nafn Cobys Adolphs, 44 ára frá Chicago, að hann hafi verið frumkvöðull og ævintýramaður.

Fyrirsögn blaðsins er „Fjöldi látinna í Bandaríkjunum nálgast 100.000, ólýsanlegur missir“ og fyrir neðan það stendur: „Þau voru ekki aðeins nöfn á lista. Þau voru við.“

Fjöldi látinna í Bandaríkjunum er nú um 97 þúsund samkvæmt tölum frá John Hopkins-háskólanum, en hvergi í heiminum hafa jafn margir látist af völdum sjúkdómsins.

Ákvörðunin um að setja forsíðuna upp með þessum hætti er útskýrð nánar  á vef blaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert