Óvíst hvort fólk hafi verið inni í vörugeymslunni

Frá eldinum í gær.
Frá eldinum í gær. Ljósmynd/Dan Whaley

Mikill eldur á hinni sögufrægu bryggju Pier 45 gjöreyðilagði fiskvinnslustöð og vörugeymslu í Fishermans Wharf í San Francisco. 

Slökkvilið réð niðurlögum eldsins um hádegi að staðartíma í gær. Fjölmiðlar vestanhafs telja það gríðarmikið afrek að slökkviliði hafi tekist að forða skipinu Jeremiah O'Brien frá eldinum. Aðeins urðu minni háttar skemmdir á skipinu sem auðvelt verður að laga eftir því sem fram kemur á vef San Francisco Chronicle.

Eldtungurnar teygðu sig meira en 30 metra upp í loftið og gríðarmikinn reyk lagði frá bryggjunni. 150 slökkviliðsmenn á 50 slökkvibílum unnu á vettvangi í gær. 

Eldsupptök eru enn óþekkt, en rannsakendur kanna nú hvort heimilislausir hafi haldið til í vörugeymslunni þegar eldurinn braust út. Búist er við því að sú rannsókn taki nokkra daga. 

Sjómaður með bát sinn í höfn við Pier 45 segir að heimilislausir einstaklingar haldi oft til í vörugeymslunni og kveiki stundum elda þar inni til að elda mat. 

mbl.is