Upplifði spænsku veikina og kórónuna

Petra Høgetveit lést í gær, södd lífdaga og 110 ára …
Petra Høgetveit lést í gær, södd lífdaga og 110 ára gömul. Hún var elsta manneskja Noregs, lenti átta ára gömul í spænsku veikinni og gat 102 árum síðar ekki haldið stórveislu vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Petra Høgetveit var elsta manneskja Noregs þar til hún lést í hádeginu í gær, 110 ára gömul. Høgetveit fagnaði 110 ára afmæli sínu 3. apríl en veislan sjálf varð, eins og svo margir mannfagnaðir síðustu mánaða, fyrir barðinu á kórónuveirunni. Hana átti að halda í veislusal í íþróttahöllinni Vikingskipet í Hamar í Innlandet, um 100 kílómetra norður af Ósló, en af því varð ekki og var því blásið til minni samkomu á elliheimili afmælisbarnsins eða réttara sagt fyrir utan það, þar sem 20 ættingjar máttu ekki koma inn á sjálft heimilið en stóðu þess í stað fyrir utan og sungu fyrir Høgetveit.

„Það var dálítið sérstakt að hún sagði við mig „við verðum gömul saman“,“ sagði Sveinung Høgetveit, 86 ára gamall sonur hennar, við norska ríkisútvarpið NRK.

Hjúkraði fjölskyldunni átta ára

Petra Høgetveit var fædd 3. apríl 1910 og ólst upp með foreldrum sínum og fjórum systkinum á Stange í Oppland-fylki, sem nú heitir Innlandet eftir sameininguna við Hedmark 1. janúar 2020. Fyrsta áfall ævi hennar var spænska veikin árið 1918 sem lagði 15.000 Norðmenn að velli.

Öll fjölskyldan lagðist á sóttarsæng nema Petra, sem þá var átta ára, og móðir hennar og hjálpuðust þær mæðgurnar að við að hjúkra systkinunum fjórum og fjölskylduföðurnum. Öll lifðu þau, segir sonurinn Sveinung við norska dagblaðið VG.

Umhugsunarvert er að 102 árum síðar kemur annar faraldur í veg fyrir afmælisveislu sömu manneskju.

„Látið tóbak og brennivín eiga sig“

Þegar Marie Antonette Andersen lést í febrúar á þessu ári, 110 ára gömul, tók Høgetveit við keflinu og varð elsta manneskja landsins. Nýr aldursforseti konungsríkisins nú er Gudrun Nymoen frá Åmot í Østerdalen, hún er 109 ára.

Høgetveit ræddi við TV2 13. apríl, skömmu eftir afmæli sitt, og var, svo sem hefð er fyrir, spurð um leyndarmálið að baki langlífinu. „Látið tóbak og brennivín eiga sig,“ svaraði afmælisbarnið um hæl, en bætti því reyndar við að gott skap og blóm hefðu einnig haft mikið að segja fyrir hana, hún hefði alltaf verið ákaflega mikil blómamanneskja.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert