Vill hitta hina leiðtogana í miðjum faraldri

Trump sagði í færslu á Twitter nýverið að löndin sem …
Trump sagði í færslu á Twitter nýverið að löndin sem tilheyra G7-samstarfinu væru hvert og eitt nú öll að koma til eftir faraldurinn. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill halda ráðstefnu G7-ríkjanna í Bandaríkjunum í júní og vill að hinir þjóðarleiðtogarnir sex láti sjá sig í eigin persónu. Trump telur að slíkur fundur gæti sent skýr skilaboð um að heimurinn sé aftur að verða eins og fyrir heimsfaraldur kórónuveiru. 

Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, sagði í dag að draumur Trumps gæti orðið að veruleika. Fundurinn er áætlaður 10. júní næstkomandi en samkvæmt O'Brien mun honum mögulega vera frestað til loka júní.

60% dauðsfalla í G7-ríkjunum

Trump sagði í færslu á Twitter nýverið að löndin sem tilheyra G7-samstarfinu væru hvert og eitt nú öll að koma til eftir faraldurinn. 

G7-ríkin samanstanda af Bandaríkjunum, Ítalíu, Bretlandi, Japan, Kanada, Frakklandi og Þýskalandi. Flest dauðsföll í heiminum vegna kórónuveiru hafa átt sér stað í Bandaríkjunum, næstflest í Bretlandi og þar næst á Ítalíu. Þá er Frakkland í fimmta sæti yfir dauðsföll vegna kórónuveiru. Samanlagt hafa 211.072 manns fallið frá vegna kórónuveirunnar í G7-ríkjunum og er það um 60% af heildarfjölda látinna á heimsvísu. 

mbl.is