Cummings skýrir ákvörðun sína og heldur áfram

Dominic Cummings í Rósagarðinum fyrir utan Downingstræti 10 í London …
Dominic Cummings í Rósagarðinum fyrir utan Downingstræti 10 í London í dag. AFP

Dominic Cummings, helsti ráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, skýrði á blaðamannafundi í dag ákvörðun sína að hafa ferðast til Norðaustur-Englands eftir að útgöngubanni hafði verið komið á í landinu. Hann ætlar ekki að segja af sér, þrátt fyrir þrýsting þar um, bæði frá þingmönnum stjórnarandstöðu og stjórnar.

Cummings hélt blaðamannafundinn fyrir utan Downingstræti 10 í London, en honum seinkaði um hálftíma eftir að hafa upphaflega ætlað að halda fundinn klukkan 16:00 að breskum tíma.

Á fundinum las Cummings upp yfirlýsingu sína og fór þar yfir rás atburða bæði hjá fjölskyldu sinni og í forsætisráðuneytinu áður en hann tók ákvörðun um að fara með konu og börn til foreldra sinna sem búa norður í landi. 

Þrýstingur hafði verið á Johnson um að reka Cummings eftir að fregnir bárust af því að hann hefði brotið útgöngubann í landinu vegna kórónuveirunnar í annað sinn.

Sagðist Cummings ekki sjá eftir ákvörðun sinni, enda taldi hann hana ekki ranga, en að hann skildi af hverju aðrir gætu verið ósammála mati sínu. Þá sagði Cummings að hann hefði ekki borið ákvörðun sína um að halda norður undir Johnson og sagðist hann sjá eftir því.

Þingmenn Íhaldsflokksins kölluðu eftir afsögn hans, auk þess sem almenningur sem sjálfur hefur virt útgöngubannið lýsti yfir óánægju með hegðun hans. Hefur mikið verið fjallað um málið í breskum miðlum síðustu daga.

Boris Johnson sagði í gær að Cummings hefði hagað sér „skynsamlega, löglega og af heilindum“ þegar hann ákvað að ferðast til Norðaustur-Englands til að koma börnum sínum í pössun þegar hann og konan hans voru við það að verða óvinnufær vegna veirunnar.

Áður hafði Cummings ferðast til Norðaustur-Englands með eiginkonu sinni sem sýndi einkenni COVID-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert