„Hún bjargaði mér“

Jyoti Kumari Paswan, fremst með grímuna, ásamt fjölskyldu sinni á …
Jyoti Kumari Paswan, fremst með grímuna, ásamt fjölskyldu sinni á heimili þeirra. Jyoti hjólaði um 1.200 kílómetra með föður sinn (lengst t.h.) á bögglaberanum til að koma honum heim til fjölskyldunnar en hann varð strandaglópur í úthverfi í Nýju-Delí í mars þegar útgöngubann tók gildi. AFP

Mohan Paswan var slasaður, atvinnulaus og fjarri heimili sínu þegar útgöngubann vegna kórónuveirunnar tók gildi á Indlandi í mars. Fimmtán ára gömul dóttir hans, Jyoti Kumari, dó ekki ráðalaus og reiddi hann á hjóli um 1.200 kílómetra, frá Gurugram, úthverfi í Nýju-Delí, að heimili þeirra í austurhluta landsins. 

Mohan er bílstjóri að atvinnu en varð strandaglópur í Gurugram eftir vinnuslys. Dóttir hans kom til Gurugram í kjölfarið en fljótlega urðu þau uppiskroppa með mat og lyf og þegar útgöngubannið tók gildi tók dóttir hans málin í sínar hendur og sagðist ætla að hjóla með föður sinn heim. Hann efaðist um ætlunarverkið og taldi sjálfan sig til að mynda of þungan. 

„Hann sagði nei fyrst, hann hélt að ég gæti ekki hjólað með hann svona langt,“ segir Jyoti. „En hún sannfærði mig. Ég er svo stoltur af henni. Hún bjargaði mér. Við hefðum dáið úr hungri í Gurugram,“ segir Mohan í samtali við fréttamann BBC, en viðtal við feðginin má sjá hér að neðan. 

Ferðin tók alls sjö daga og þáðu feðginin matargjafir á leiðinni. „En við fengum engan almennilegan mat í tvo daga,“ segir Jyoti. 

Jyoti og Mohan eru í hópi um 2.000 Indverja sem lentu í erfiðleikum þegar útgöngubannið tók gildi og komust ekki til síns heima. Útgöngubann hefur verið í gildi í tvo mánuði en aflétting þess er nú hafin. 

Afrek Jyoti hefur vakið verðskuldaða athygli og hafa Hjólreiðasamtök Indlands boðið henni að gerast atvinnuíþróttamaður undir þeirra verndarvæng. Jyoti afþakkaði hins vegar pent þar sem hún hyggst klára að mennta sig fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert