Í beinni þegar skjálfti reið yfir

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

„Það er dálítill jarðskjálfti hérna, Ryan,“ sagði Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sem var í sjónvarpsviðtali í beinni útsendingu í höfuðborginni Wellintgon þegar jarðskjálfti að stærð 5,8 reið yfir í grennd við höfuðborgina.

Ardern var í viðtali á sjónvarpsstöðinni Newshub, snemma í morgun að staðartíma, þegar jörð hóf að hristast. Engar fréttir hafa borist af slysum á fólki vegna skjálftans og tjón virðist sáralítið.

Ardern var stödd í þinghúsinu í Wellington og sagði Ryen Bridge, stjórnanda morgunþáttarins, frá jarðskjálftanum.

„Þetta er nokkuð stór skjálfti,“ sagði forsætisráðherrann.

Skjálftinn varði í nokkrar sekúndur en Ardern hélt ró sinni og beið eftir að honum lyki. Hún fullvissaði síðan Bridge um að allt væri í himnalagi, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert