Segir af sér vegna vændiskaupa

Hans Forsberg, glaðlyndur á meðan hann var enn bæjarstjóri.
Hans Forsberg, glaðlyndur á meðan hann var enn bæjarstjóri. Ljósmynd/Forsberg

Hans Forsberg, bæjarstjóri í sænska sveitarfélaginu Kungsbacka, hefur sagt af sér embætti eftir að hafa játað vændiskaup við yfirheyrslur hjá lögreglu á laugardagskvöld. Í fréttatilkynningu viðurkennir Forsberg brotið og segist fullur eftirsjár en tilbúinn að axla ábyrgð á mistökunum.

Gautaborgarpósturinn greinir frá því að lögreglan hafi um klukkan 23 á laugardagskvöld verið kölluð að íbúð í Örgryte í Gautaborg, en ábending hafði borist um að þar væri grunsamlega mikill umgangur og ekki ólíklegt að eitthvað ólöglegt væri þar á seyði.

Kom á daginn að hópur vændiskvenna dvaldi í íbúðinni en þær eru að sögn frá Austur-Evrópu. Því til viðbótar stöðvaði lögreglan hóp karlmanna utan við íbúðina, en einn þeirra var umræddur Hans Forsberg.

„Eftir það sem gerðist nýt ég ekki lengur trausts innan flokksins og er tilbúinn að taka afleiðingunum,“ segir í tilkynningu frá Forsberg, sem sat í bæjarstjórn fyrir hönd hægriflokksins Moderaterna.

mbl.is