Synti yfir díki við keisarahöllina

AFP

Japani á fertugsaldri var handtekinn í Tókýó í morgun eftir að hafa synt yfir díkið við keisarahöllina og farið inn á lokað svæði við höllina skömmu áður en keisarinn átti að taka þátt í gróðursetningu hrísgrjóna annars staðar á landareigninni. 

Ekki hefur verið upplýst hvað manninum gekk  til og að sögn lögreglu hafði þetta ekki áhrif á athöfnina sem Naruhito keisari tók þátt í. 

AFP

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fólk er handtekið fyrir að brjóta varnir hallarinnar. Árið 2013 voru tveir menn, sem sögðust vera breskir ferðamenn, gripnir glóðvolgir á brókinni að synda í síkinu. Ári áður var Japani handtekinn á nærbrókinni á svæðinu við höllina. Hann sagðist hafa synt yfir sýkið og vildi ræða við keisarann. 

Árið 2008 var síðan nakinn Breti handtekinn eftir að hafa synt yfir díkið og klifrað upp steinvegginn. Blasti maðurinn við gestum og gangandi í allri sinni dýrð og lét ófriðlega þegar lögregla reyndi að nálgast hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert