Nýtt met í smitum

Flest kórónuveirusmitin í Chile eru í höfuðborginni.
Flest kórónuveirusmitin í Chile eru í höfuðborginni. AFP

Tæplega fimm þúsund ný smit hafa greinst í Chile síðasta sólarhringinn og hafa  aldrei greinst jafn mörg smit þar á einum sólarhring. Meðal þeirra sem hafa greinst með kórónuveiruna eru tveir ráðherrar í ríkisstjórn Sebastian Pinera.

Heilbrigðisyfirvöld greindu frá því að 4.895 hafi verið greindir með COVID-19 og 43 látist síðasta sólarhringinn. Meðal þeirra sem fengu það staðfest að vera með kórónuveiruna eru Alfredo Moreno sem fer atvinnumál og Juan Carlos Jobet sem fer með orkumál í ríkisstjórn Chile.

„Mér hefur verið tjáð að COVID-19-sýnataka, sem ég fór í fyrir nokkrum dögum hafi verið jákvæð,“ segir Moreno á Twitter. Hann segir að enn sem komið er sé hann ekki með nein sjúkdómseinkenni. 

Ráðherrann, sem er 63 ára gamall, hafði sjálfur farið í sóttkví eftir að einn starfsmanna hans greindist með veiruna.

Jobet greindist einnig með smit eftir að hafa farið í sjálfskipaða sóttkví á laugardag þegar hann fór að finna fyrir einkennum sem minntu á kórónuveiruna.

Ráðherrann, sem er 44 ára gamall, segir að hann hafi ekki verið í neinum beinum tengslum við forseta landsins né heldur aðra í ríkisstjórninni undanfarna daga.

Þrír aðrir ráðherrar sem einnig voru í sjálfskipaðri sóttkví reyndust ekki vera með veiruna.

Nýjum smitum fjölgaði mjög í Chile í síðustu viku og í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin að setja á útgöngubann í Santiago. Flest smit hafa greinst í höfuðborginni eða 90% þeirra 74 þúsund smita sem hafa greinst í Chile. 

Í síðustu viku var öldungadeildinni lokað þar sem þrír öldungadeildarþingmenn greindust með veiruna. Síðan hafa þingfundir farið fram með myndfundabúnaði. 

Smitum hefur fjölgað mjög í Chile undanfarna daga.
Smitum hefur fjölgað mjög í Chile undanfarna daga. AFP
mbl.is