Samspil veirunnar og hitabylgju áhyggjuefni

Alþjóðaveðurfræðistofnunin hvetur ríkisstjórnir til að gera ráðstafanir til að tryggja …
Alþjóðaveðurfræðistofnunin hvetur ríkisstjórnir til að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi íbúa í sumarhitanum en reyna á sama tíma að koma í veg fyrir að smit breiðist út. AFP

Veðurfarsstofnun Sameinuðu þjóðanna varar við því að kórónuveirufaraldurinn geti haft alvarlega áhrif á afleiðingar hitabylgju sem mun að öllum líkindum ganga yfir norðurhvel jarðar í sumar. 

Alþjóðaveðurfræðistofnunin (e. World Meterological Organization, WMO) hvetur ríkisstjórnir til að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi íbúa í sumarhitanum en reyna á sama tíma að koma í veg fyrir að smit breiðist út. 

Árið 2019 var heit­asta ár frá upp­hafi mæl­inga í Evr­ópu, samkvæmt ár­legri skýrslu lofts­lags­sviðs Copernicus­ar, og í ár er útlit fyrir að metið verði slegið samkvæmt Clare Nullis Klapp, talskonu WMO. „COVID-19 eykur líkur á heilbrigðisáhættu í hitabylgju og flækir viðbragðsferlið,“ segir Nullis Klapp. 

Hún bendir til að mynda á að ekki verði æskilegt að hvetja fólk til að safnast saman í stórum almenningsrýmum sem verða loftkæld og því hefur stofnunin efnt til samstarfs nokkurra alþjóðasamtaka sem leita nú leiða til að bregðast við yfirvofandi hitabylgju með nýjum hætti sem styður smitvarnir.

mbl.is