Borga fyrir ferðafólk sem fær veiruna

Einhverjir munu flatmaga í sólinni á Kýpur í sumar.
Einhverjir munu flatmaga í sólinni á Kýpur í sumar. AFP

Stjórnvöld á Kýpur heita því að greiða allan kostnað fyrir ferðafólk sem greinist með kórónuveiruna á meðan það dvelur í fríi á eyjunni. Þetta kemur fram í bréfi sem utanríkis-, samgöngu- og ferðamálaráðherra landsins skrifuðu undir.

Gisting, matur, drykkur og lyfjameðferð verður greidd fyrir þá sem veikjast og fjölskyldur þeirra. Sjúklingar munu eingöngu borga fyrir leigubíl á flugvöll og flugferðina aftur til síns heima.

Sjúkrahús, sem rúmar 100 sjúklinga, mun eingöngu sjá um erlenda ferðamenn sem greinast með kórónuveiruna. Um 112 gjörgæslurými, með 200 öndunarvélum, verða til staðar fyrir þá sem verða alvarlega veikir.

Auk þess verður hótel með 500 herbergjum tekið frá fyrir fjölskyldu og aðra nátengda þeim sem veikjast.

Alls hafa 939 tilfelli kórónuveiru verið greind á Kýpur og 17 hafa látist.

Opnað verður fyrir alþjóðlega flugumferð til eyjunnar 9. júní frá 19 löndum þar sem farþegum verður gert að gangast undir kórónuveirupróf þremur dögum fyrir brottför. 

Farþegar verða að sýna niðurstöðu úr veiruprófi fyrir brottför. Einnig þarf að greina frá ferðalögum undanfarinna fjórtán daga og ekki má sýna einkenni veirunnar þremur sólarhringum fyrir brottför.

Farþegar verða hitamældir við komuna til eyjunnar og þeir geta búist við handahófskenndum veiruprófunum, meðan á dvölinni stendur, þeim að kostnaðarlausu.

Frá 20. júní verða engar hömlur á ferðir fólks frá 13 löndum, til að mynda Þýskalandi, Finnlandi, Ísrael, Grikklandi og Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert