Náðu tindi Everest í miðjum heimsfaraldri

Hluti landmælingahópsins fagnar í grunnbúðunum eftir að hafa fengið staðfestingu …
Hluti landmælingahópsins fagnar í grunnbúðunum eftir að hafa fengið staðfestingu á því að markmiðinu væri náð. AFP

Hópur kínverskra landmælingamanna kleif Everest í miðjum heimsfaraldri kórónuveiru. Enginn annar hefur klifið þetta hæsta fjall heims í kórónuveirufaraldrinum, en ferðir erlends fjallgöngufólks hafa verið bannaðar. 

Samkvæmt BBC var tilgangur ferðarinnar að endurmæla hæð Everest, en fjallið er á landamærum Nepal og Kína. 

Fram að þessu hafa kínversk stjórnvöld sagt fjallið vera 4 metrum lægra en nágrannar þeirra í Nepal. Gríðarstór jarðskjálfti árið 2015 gæti hafa haft áhrif á mælingar kínverskra landmælingamanna. 

Í ár bönnuðu bæði löndin erlendum ferðamönnum að klífa Everest sökum kórónuveirufaraldursins. Kínversk stjórnvöld hafa þó leyft borgurum sínum að klífa Everest á meðan nepölsk stjórnvöld hafa bannað alla leiðangra. 

Kínverski hópurinn hóf uppleið sína í apríl en þurfti ítrekað að fresta ferðinni upp á toppinn vegna slæms veðurs. 

Kínverski landmælingahópurinn.
Kínverski landmælingahópurinn. AFP

Samkvæmt Richard Salisbury, forsvarsmanni Himalaja-gagnagrunnsins, samtökum sem halda utan um alla leiðangra á Everest, er afar sjaldgæft að aðeins kínverskir fjallgöngumenn toppi fjallið. 

„Vorið 1960 komst aðeins kínverskur leiðangur á toppinn. Hópur Indverja reyndi en þeim mistókst það. Fjöldi kínverskra rannsókna- og æfingahópa var á fjallinu á árunum 1958 ti 1967 þegar enginn annar var á fjallinu, en enginn hópanna fór á toppinn,“ segir Salisbury við BBC. 

Hversu hátt er Everest?

Kínversk stjórnvöld hafa sagt Everest vera 8.844 metra hátt eftir að mælingar á fjallinu fóru fram árið 2005. Í Nepal aftur á móti er fjallið sagt vera 8.848 metra hátt, en sú hæð var niðurstaða indverskra mælinga á tímum nýlenduveldis Bretlands. 

Árið 2017 hófu nepölsk stjórnvöld mælingar á fjallinu. Til stóð að kynna niðurstöður þeirra í ár, en þeirri tilkynningu hefur verið frestað vegna kórónuveirunnar. 

Xi Jinping, forseti Kína, fór í opinbera heimsókn til Nepal í október og gáfu þá leiðtogar beggja landa út yfirlýsingu um að hæð Everest yrði tilkynnt sameiginlega. Það er þó óvíst hvaða leið verði farin ef mælingar landanna tveggja verða misvísandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert