Trump hótar að setja strangari reglur á samfélagsmiðla

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði í morgun að setja strangar reglur eða jafnvel láta loka samfélagsmiðlum eftir að Twitter merkti tvö tíst hans sem misvísandi. Sagði hann að skoðun repúblikana væri að samfélagsmiðlar væru að reyna að þagga niður í íhaldssömum röddum.

Sagði Trump jafnframt að komið hefði í ljós árið 2016, þegar hann var kjörinn forseti, hvað samfélagsmiðlar hefðu reynt að gera, en mistekist. Segir hann nú að ekki megi láta miðlana gera það aftur nú.

Í tístum forsetans sem Twitter hefur merkt sérstaklega sem misvísandi hélt Trump því fram, án þess að færa fyr­ir því nokk­ur rök eða sann­an­ir, að kjör­seðlar sem eru send­ir heim til fólks leiði til kosn­inga­svika og „spilltra kosn­inga“.

Und­ir tíst­un­um setti for­set­inn tengla þar sem stóð „Sækið staðreynd­ir um kjör­seðla sem eru send­ir í pósti“. Þar er bent á að CNN, Washingt­on Post og fleiri fréttamiðlar hafi vitnað í sér­fræðinga sem segja að kjör­seðlar í pósti teng­ist afar sjald­an kosn­inga­svik­um.

Segir hann aftur í dag að slíkir kjörseðlar myndu opna algjörlega á kosningasvindl og að sá sem muni svindla mest muni vinna.mbl.is