Aðgerðasinninn Larry Kramer látinn

Larry Kramer árið 2009.
Larry Kramer árið 2009. AFP

Larry Kramer, sem barðist fyrir réttindum samkynhneigðra og var áberandi í baráttunni gegn alnæmi á níunda áratugnum, er látinn, 84 ára gamall.

Þegar ekki var enn komið nafn á sjúkdóminn var Kramer fremstur í flokki við að krefjast aðgerða frá yfirvöldum, bæði úr heilbrigðis- og stjórnmálageiranum, sem drógu lappirnar við rannsóknir og fleira.

„Hvíldu í friði baráttumaðurinn okkar, Larry Kramer. Reiði þín veitti heilli hreyfingu innblástur,“ sagði í tísti frá alnæmissamtökunum Act Up.

Að sögn The New York Times, sem vitnaði í eiginmann Kramers, lést hann af völdum lungnabólgu. Auk þess að vera HIV-jákvæður átti Kramer við fleiri veikindi að stríða og gekkst hann undir lifrarígræðslu árið 2001.

Kramer árið 2015.
Kramer árið 2015. AFP

Tilnefndur til Óskarsverðlauna

Kramer starfaði sem handritshöfundur í Hollywood og var tilnefndur til Óskarsverðlaunanna árið 1971 fyrir handrit upp úr skáldsögu D.H. Lawrence, Women in Love. Einnig starfaði hann við framleiðslu myndanna Dr. Strangelove og Lawrence of Arabia.

„Ég starfaði í kvikmyndaiðnaðinum. Ég var á góðri leið með að þéna mikinn pening. Ég var alls ekki samkynhneigður maður fyrst og fremst. Það gerðist ekki fyrr en ég tók þátt í baráttunni gegn AIDS og einn sem var nákominn mér lést,“ sagði hann í viðtali við NPR árið 1992.

„Skyndilega var ég ekki lengur hvítur maður úr Yale-háskóla heldur var ég orðinn nafnlausi homminn.“

Á meðal þeirra sem hafa minnst Kramers á samfélagsmiðlum er söngvarinn Elton John, sem sagði hann „risavaxinn mann“ og leikkonan Julia Roberts.


Bill de Blasio, borgarstjóri New York, hrósaði Kramer einnig fyrir baráttu hans. „Hann hristi upp í hlutunum, talaði til þeirra sem höfðu völdin, sumum til mikils ama en hann hafði nánast alltaf rétt fyrir sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert