Fjölmörg börn á leið í fátækt

AFP

Vegna efnahagslegs samdráttar í heiminum af völdum COVID-19 gæti börnum sem búa við
fátækt fjölgað um 86 milljónir á þessu ári, samkvæmt nýrri greiningu Barnaheilla — Save the
Children og UNICEF sem gefin var út í dag.

Samkvæmt skýrslunni er hætta á því að heildarfjöldi barna sem býr undir fátæktarmörkum gæti farið í 672 milljónir í árslok 2020. Nær 2/3 hlutar þessara barna búa í sunnanverðri Afríku og í Suður-Asíu.

Áætlað er að mesta fjölgun barna er búa við fátækt verði í Evrópu og Mið-Asíu eða allt að 44% aukning á þeim svæðum. Í Suður-Ameríku og Karabíska hafinu gæti aukningin orðið allt að 22%.

AFP

„Heimsfaraldurinn hefur hrint af stað fordæmalausri félags- og efnahagskreppu sem eykur fátækt hjá fjölskyldum úti um allan heim,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu.

„Umfang kreppunnar eykur fátækt og er það stórt skref afturábak frá þeirri framför sem hefur átt sér stað síðustu ár, við að draga úr fátækt meðal barna. Án samstilltra aðgerða verður milljónum barna ýtt í fátækt vegna ástandsins og fátækustu fjölskyldurnar munu upplifa sárari fátækt en við höfum séð í marga áratugi."

Skyndilegt tekjutap getur þýtt að fjölskyldur hafi ekki efni á að sinna grunnþörfum sínum, eins og að kaupa mat og vatn. Einnig er ólíklegt að fjölskyldur hafi tök á að sækja sér heilbrigðisþjónustu eða menntun. Fátækt ýtir einnig undir barnahjónabönd, ofbeldi og misnotkun, segir í tilkynningu.

Inger Ashing, framkvæmdastjóri Save the Children, segir nauðsynlegt að bregðast við núna. „Efnahagsleg áhrif Covid-19 munu helst bitna á börnum. Börn eru mun viðkvæmari fyrir hungri og vannæringu en aðrir — sem getur haft áhrif á þau alla ævi. Ef við bregðumst við núna þá getum við komið í veg fyrir þá efnahagslegu ógn sem fátækustu fjölskyldur heims standa frammi fyrir. Þessi skýrsla ætti að opna augu okkar. Það er hægt að koma í veg fyrir fátækt meðal barna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert