Gert að „kæla sig niður“ fyrir skilnað

Skilnaðartíðni í Kína hefur hækkað statt og stöðugt frá því …
Skilnaðartíðni í Kína hefur hækkað statt og stöðugt frá því að hjónabandslöggjöf var gefin frjáls árið 2003. AFP

Kínversk pör sem sækja um skilnað þurfa fyrst að taka sér mánuð til að „kæla sig niður“ samkvæmt nýrri löggjöf sem samþykkt hefur verið í Kína. Löggjöfin hefur valdið talsverðri reiði og eru stjórnvöld sökuð um að skipta sér af persónulegum samböndum fólks.

Samkvæmt löggjöfinni þurfa pör sem sækja um skilnað nú að bíða í mánuð áður en beiðni þeirra er tekin til greina, en um er að ræða tilraun til að draga úr tíðni skilnaða í Kína.

Frumvarpið að lögunum var fyrst kynnt á síðasta ári og mætti það mikilli andstöðu. Löggjöfin er hluti af stærri löggjöf, svokallaðri borgaralegri löggjöf sem kemur í stað laga um hjónabönd, ættleiðingar og eignarhald meðal annars.

Geri sömu kröfur áður en fólk fái að gifta sig

Fjöldi Kínverja hefur tjáð sig um málið á Weibo, sem er eins konar kínverskt Twitter. Einn notandi spyr hvort stjórnvöldum sé alvara með því að leyfa ekki frjálsa skilnaði. „Það hlýtur að vera fullt af fólki sem giftir sig í fljótfærni. Þeir ættu einnig að setja lög sem krefjast þess að fólk taki sér mánuð í að kæla sig niður áður en fólk fær að gifta sig.“

Samkvæmt frétt AFP af málinu er eina undantekningin frá lögunum ef sótt er um skilnað vegna heimilisofbeldis. 

Skilnaðartíðni í Kína hefur hækkað statt og stöðugt frá því hjónabandslöggjöf var gefin frjáls árið 2003 samhliða auknu fjárhagslegu sjálfstæði kvenna og hægt var að sækja um skilnað án þess að stefna maka fyrir dóm.

mbl.is