„Mamma, mamma“

AFP

Kveikt var í verslunum og til átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu í bandarísku borginni Minneapolis í gærkvöldi vegna dráps lögreglumanns á svörtum manni. Lögreglumaðurinn þrengdi að önd­un­ar­vegi mannsins með því krjúpa á hálsi hans í nokkr­ar mín­út­ur með þeim afleiðingum að hann lést. 

Lögreglan beitti táragasi, skaut gúmmíkúlum og myndaði varnarvegg til að koma í veg fyrir að mótmælendur kæmust yfir girðingu í kringum lögreglustöð þriðja umdæmis þar sem lögreglumennirnir sem eru sakaðir um að hafa drepið George Floyd störfuðu áður en þeir voru reknir í kjölfar drápsins. 

AFP

Þúsundir tóku þátt í mótmælunum í gærkvöldi líkt og kvöldið áður og hefur almenningur víðs vegar um Bandaríkin lýst andúð á aðferðum lögreglunnar eftir að myndskeið sem vegfarandi tók af drápinu var birt á samfélagsmiðlum. Þar sést Floyd handjárnaður og í haldi fjögurra lögreglumanna þar sem einn þrýstir hné sínu á háls Floyds á mánudagskvöldið.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir í færslu á Twitter að dauði Floyds sé bæði sorglegur og hörmulegur. Allir lögreglumennirnir hafa verið reknir frá störfum og saksóknari hefur óskað eftir aðstoð bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) við rannsókn málsins. Lögreglumennirnir eiga yfir höfði sér ákæru.

AFP

Lögreglustjórinn í Minneapolis, Medaria Arradondo, biður mótmælendur um að sýna aðgát og mótmæla á friðsaman hátt. Klukkan 10 í gærkvöldi var kveikt í bílapartaverslun skammt frá afgirta svæðinu og eins var brotist inn í Target-verslun og ruplað þar og rænt.

„Ég vil sjá þessa lögreglumenn ákærða fyrir manndráp því það er nákvæmlega það sem þeir gerðu,“ segir Bridgett Floyd, systir Floyds. „Þeir drápu bróður minn. Þeir eiga að sitja í fangelsi fyrir morð.“

AFP

Borgarstjórinn í Minneapolis, Jacob Frey, segir óskiljanlegt hvers vegna lögreglumaðurinn, sem þrýsti hné að hálsi Floyds þangað til hann missti meðvitund, hafi ekki verið handtekinn.

„Hvers vegna er maðurinn sem drap George Floyd ekki í fangelsi? Ef þú hefðir gert þetta, eða ef ég hefði gert þetta þá værum við bak við lás og slá þessa stundina,“ segir Frey.

„Ég næ ekki andanum“

Floyd, sem var 46 ára gamall starfsmaður á veitingahúsi, hafði verið handtekinn fyrir minni háttar brot. Það er að hafa framvísað fölsuðum 20 dala seðli þegar hann ætlaði að greiða á afgreiðslukassa verslunar. 

Í myndskeiðinu heyrist Floyd grátbiðja lögreglumanninn um að láta sig lausan. „Hnéð á þér er á hálsinum á mér. Ég næ ekki andanum... Mamma, mamma,“ segir Floyd.

Síðan þagnar hann og er hreyfingarlaus þrátt fyrir að lögreglumennirnir segi honum að standa upp og fara inn í bílinn. Floyd var síðan fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl þar sem hann var úrskurðaður látinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert