Uggandi vegna kjarnorkukafbáta

Umferð kjarnorkukafbáta á vegum bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins NATO hefur stóraukist við …
Umferð kjarnorkukafbáta á vegum bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins NATO hefur stóraukist við Noregsstrendur samhliða auknum umsvifum og heræfingum rússneska Norðurflotans sem hefur gert sig æ breiðari við Noreg undanfarin misseri og þrýsta nú NATO og norsk hernaðaryfirvöld mjög á Tromsø um aðstöðu og bækistöð fyrir neðansjávarfley sín nær rússnesku landamærunum en flotastöðin í Bergen býður upp á. Ljósmynd/Paul Farley/AFP

„Þetta er miður góð lausn fyrir okkur. Við viljum helst ekki að þessi höfn sé nýtt í þessum tilgangi,“ segir Jarle Heitmann, hópstjóri Verkamannaflokksins og stjórnarmaður hafnarinnar í Tromsø í Noregi, í viðtali við dagblaðið Klassekampen sem rekur læsta áskriftarsíðu, en norska ríkisútvarpið NRK vitnar í viðtalið.

Heitmann vísar til umferðar kjarnorkuknúinna kafbáta á vegum Atlantshafsbandalagsins NATO úti fyrir Noregsströndum sem bandalagið óskar nú eftir að fái viðleguaðstöðu í höfn Tromsø á Tønsnes í Grøtsund eftir að gömlu NATO-flotastöðinni í bænum, Olavsvern, var lokað árið 2009 og hún síðar seld fjárfestum.

Eftir lokun stöðvarinnar hefur þrýstingur frá NATO stigmagnast um að fá bækistöð norðar í Noregi en eina höfn landsins önnur er staðsett, sem hefur vottun til að mega taka á móti kjarnorkuknúnum sjóförum, en það er Haakonsvern-flotastöðin í Bergen. Höfnin í Tromsø hlaut sína vottun nýverið, núna í vor.

Vilja bregðast við athöfnum Rússa

Með bækistöð svo norðarlega vilja vesturveldin geta brugðist fyrr við athöfnum Rússa á hafsvæðum úti fyrir ströndum Noregs, sem hafa gert sig mjög digra þar undanfarið með heræfingum og stóraukinni umferð kafbáta og annarra vígafleyja, eins og Morten Haga Lunde, yf­ir­maður norsku leyniþjón­ust­unn­ar, gerði grein fyrir í fyrirlestri á vegum Oslo Militære Sam­fund, sam­taka sem hafa fræðslu um varn­ir Nor­egs og mál­efni hers­ins á stefnu­skrá sinni, fyrr á árinu þar sem hann kynnti skýrsluna FOKUS 2020.

Sagði Lunde þar meðal annars frá því að Norðurfloti Rússa væri að auka styrk sinn til muna með endurnýjun herskipa og meðal annars að gera tilraunir með nýjan kafbát af Dolgorukij-framleiðslulínunni sem borið getur langdrægar burðarflaugar og er raunar fyrsta nýja gerð hernaðarkafbáta sem Rússar þróa eftir lok kalda stríðsins.

Enn fremur greindi hann frá nýjustu skrautfjöðrinni í hatti rússneska flughersins, flugskeytinu Kinzhal, eða rýtingur, sem næði allt að tólfföldum hljóðhraða og gæti hæft skotmörk í 2.000 kílómetra fjarlægð. Slíkt skeyti gæti þannig hæft hernaðarlega mikilvæg skotmörk í Noregi 40 mínútum eftir að flugvél, sem bæri skeytið, hæfi sig á loft frá Kólaskaganum í Rússlandi.

Brynjar Stordal, talsmaður aðgerðastjórnstöðvar norska hersins, segir að ráðgert hafi verið að fyrstu kjarnorkukafbátarnir kæmu til Tromsø fyrri hluta þessa árs en eins og svo mörgu öðru í heiminum hafi því verið slegið á frest vegna kórónuveirufaraldursins.

„Við höfum fengið pólitískan stuðning til að búa Grøtsund undir heimsóknir kjarnorkukafbáta og höfum átt í samstarfi við Tromsø um það. Við skiptum okkur ekki af pólitík,“ segir Stordal, en bendir á að samkvæmt norskum hafnalögum beri norskum höfnum skylda til að taka á móti öllum (vinveittum) herskipum.

Fengu stöðina á skít og kanil

Það var fjárfestirinn Gunnar Wilhelmsen, sem nú er reyndar bæjarstjóri í Tromsø, sem á sínum tíma gekk í það ásamt fjárfestahópnum Olavsvern Group að kaupa gömlu flotastöðina af sveitarfélaginu. Fékk hópurinn stöðina á 38 milljónir norskra króna (529,6 milljónir ISK á gengi dagsins í dag) þrátt fyrir að ásett verð væri 105 milljónir (tæplega 1,5 milljarðar ISK á gengi dagsins í dag). Skýringar á afslættinum fengust aldrei.

Bandarískir kafbátar hafa verið við æfingar úti fyrir norskri strandlengju …
Bandarískir kafbátar hafa verið við æfingar úti fyrir norskri strandlengju auk þess að safna upplýsingum um kafbátaflota og herstyrk Rússa sem hafa verið æ sýnilegri við Noreg síðustu ár. Ljósmynd/Bandaríska varnarmálaráðuneytið

NATO byggði stöðina á sínum tíma, á árunum 1961 til 1968 þegar eldar kalda stríðsins brunnu hvað heitast, og kostaði sú framkvæmd þrjá milljarða norskra króna (tæpa 42 milljarða ISK á gengi dagsins í dag). Stöðvarsvæðið er 25.000 fermetrar og er þar aðstaða fyrir kafbáta og tundurskeytabáta (MTB). Hluti stöðvarinnar er byggður inn í fjall þar sem eru mörg hundruð metrar af göngum ásamt öðrum rýmum auk þess sem lendingaraðstaða er fyrir þyrlur og alls 13.000 fermetrar af íbúðarhúsnæði fyrir starfsfólk.

Í hers höndum á ný

Í fyrrahaust keypti félagið WilNor Governmental Services 66 prósent hlutabréfa í Olavsvern Group í samstarfi við Forsvarets logistikkorganisasjon (FLO, birgðastjórnunarstofnun hersins) sem gerir hernum kleift að nýta gömlu flotastöðina í eigin þágu.

Hernum gengur þó ekki til ætlunar að koma þar upp leguaðstöðu fyrir kjarnorkukafbáta Atlantshafsbandalagsins, heldur eingöngu að nota stöðina sem lager og birgðageymslu fyrir norska herinn og herafla bandamanna.

Stóraukin umferð kjarnorkuknúinna sjófara við strendur Norður-Noregs hefur valdið Geislavörnum ríkisins (n. Statens strålevern) nokkrum áhyggjum svo sem fram kom meðal annars í skýrslu stofnunarinnar frá 2018.

NRK

NRK II (stóraukin umferð kjarnorkukafbáta (grein frá 2018))

NRK III (kaup flotastöðvarinnar (grein frá 2013))

E24

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert