Yfir 100 þúsund látin í Bandaríkjunum

Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar var staðfest í Bandaríkjunum 21. janúar. Yfir …
Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar var staðfest í Bandaríkjunum 21. janúar. Yfir 100.000 hafa látið lífið af völdum veirunnar þar í landi. AFP

Staðfest dauðsföll af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum eru komin yfir 100 þúsund. Hvergi hafa fleiri látið lífið af völdum veirunnar í heiminum en næst á eftir kemur Bretland með 37.919 dauðsföll. 

Alls hafa 1,7 milljónir smitast í Bandaríkjunum og nemur það 30% allra smita í heiminum. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir í færslu á Twitter að um „sorgleg þáttaskil“ sé að ræða og vottar hann fjölskyldum og vinum þeirra sem látið hafa lífið samúð. 

Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar var staðfest í Bandaríkjunum 21. janúar. Á heimsvísu hafa 5,6 milljónir smitast og 354.983 látið lífið. Af þeim má rekja 101.337 til Bandaríkjanna samkvæmt nýjustu tölulegu upplýsingum frá Johns Hopkins-háskólanum

Tilfellum fer fjölgandi í 20 ríkjum Bandaríkjanna, þar á meðal Norður-Karólínu, Wisconsin og Arkansas. Á sama tíma er faraldurinn í rénun í New York, þar sem hann hefur verið hvað skæðastur þar sem 21 þúsund hafa látist.

mbl.is