Ísland ekki í hópi 29 ríkja sem mega fljúga til Grikklands

Grikkir leyfa komur frá 29 ríkjum á flugvöllum í Aþenu …
Grikkir leyfa komur frá 29 ríkjum á flugvöllum í Aþenu og Þessalóníku frá 15. júní. Ísland er ekki í þeim hópi. AFP

Flugvellir á Grikklandi opna að nýju í Aþenu og Þessaloníku 15. júní. Komur frá 29 ríkjum verða heimilaðar á flugvöllunum. Ísland er ekki þar á meðal. 

16 Evrópuríki eru á listanum, þar á meðal Þýskaland, Austurríki, Danmörk, Finnland, Tékkland, Eystrasaltsríkin, Kýpur og Malta. Evrópuríki sem hafa farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum, svo sem Frakkland, Spánn, Bretland og Ítalía, eru ekki á listanum. 

Ríkjum utan Evrópusambandsins sem verður heimilt að fljúga til landsins eru Noregur, Sviss og nágrannaríki frá Balkanskaganum, auk Ástralíu, Japan, Ísrael, Líbanon, Kína, Nýja-Sjáland og Suður-Kórea. 

Frá því faraldurinn hóf að breiðast út í Grikklandi í mars hefur flugumferð verið takmörkuð en þeir sem koma til landsins hafa þurft að fara í tveggja vikna sóttkví. Önnur ríki geta bæst á listann frá 1. júlí, að því er segir í tilkynningu ferðamálaráðuneytis Grikklands. 

2.906 hafa greinst með veiruna í Grikklandi og 175 látið lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert