Kennarar reknir fyrirvaralaust

Lars Håndlykken og Iren Christensen ásamt syninum Billy. Þau veiktust …
Lars Håndlykken og Iren Christensen ásamt syninum Billy. Þau veiktust í mars og nýttu sér flug á vegum norskra stjórnvalda til að komast til Noregs á tímum þegar enginn vissi hver örlög Evrópu yrðu í kórónufaraldrinum. Þeim, ásamt fleiri norskum kennurum við Costa Blanca-skólann, var sagt upp fyrirvaralaust þegar þau ekki mættu til kennslu í landi sem enn er lokað vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Norskir kennarar við Norska skólann í Costa Blanca á Spáni segja farir sínar ekki sléttar en skólayfirvöld ráku sjö norska kennara fyrirvaralaust eftir að þeir forðuðu sér heim til Noregs þegar skórinn tók verulega að kreppa í kórónuhamförunum fyrr í vor.

Í þessum hópi er sambýlisfólkið Lars Håndlykken og Iren Christensen frá Skien í Noregi en bæði hafa þau kennt við skólann um árabil og eiga fjögurra ára gamlan son, Billy, sem var í norskum leikskóla á Spáni þar til öll fjölskyldan smitaðist af kórónuveirunni í mars.

„Það var hreint áfall að upplifa sjúkdóminn á Spáni auk þess að vera með fjögurra ára gamalt barn. Við sættum útgöngubanni og máttum ekki fara út úr húsi,“ segir Håndlykken við norska ríkisútvarpið NRK.

Nýttu einu flóttaleiðina

Þau sáu sitt óvænna og ákváðu að nýta einu flóttaleiðina sem stóð þeim til boða, flug á vegum norska utanríkisráðuneytisins sem flutti Norðmenn heim af sólarströndunum þegar drepsóttin vomaði eins og dimmt en ósýnilegt ský yfir Íberíuskaganum á vordögum.

Þessi valkostur kostaði hins vegar þau, og fimm aðra norska kennara, starfið því fólkið var rekið fyrirvaralaust með tölvupóstboði á mánudaginn og kom verulega flatt upp á þau sambýlingana. „Við misstum allan aðgang að tölvukerfi og öllum vinnugögnum auk allra okkar réttinda á nokkrum klukkustundum,“ segist Håndlykken frá.

Skólinn tók einfaldlega þann pólinn í hæðina að starfsfólk hans geti ekki vænst þess að halda starfi sínu gæti það ekki mætt á vinnustað sinn þegar hann opnar á ný. Norski skólinn í Costa Blanca opnaði nú í vikunni þrátt fyrir að spænskir skólar séu enn lokaðir.

Rekin fyrir að mæta ekki til lokaðs lands

Fjölskyldan á þess engan kost að mæta til starfa í vikunni þar sem landamæri Spánar eru enn lokuð og verða fram í júlí auk þess sem henni væri nauðugur einn kostur að hefja dvölina á 14 daga sóttkví jafnvel þótt henni yrði hleypt inn í Spán á grundvelli starfa foreldranna þar, sem þeir nú hafa ekki lengur vegna brottrekstrar fyrir að mæta ekki til starfa – ástand sem ef til vill mætti kalla 21. aldar endurspeglun á Grein 22 í samnefndri skáldsögu Joseph Heller frá 1961, Catch-22.

„Þetta er samkenndar- og miskunnarlaust og langan veg frá þeim gildum sem lýðræðisleg samfélög byggja á auk þess sem um klárt brot á vinnulöggjöf er að ræða,“ vill Håndlykken meina.

Stjórnarformaður skólans, Ellen Watkinson, svarar NRK snubbótt í SMS-skeyti og segist ekki ræða starfsmannamál skólans í fjölmiðlum. „Skólinn hefur nægt kennslulið það sem eftir lifir skólaárs. Nú vinnum við að góðu upphafi náms fyrir þá nemendur sem sótt hafa um nám á haustönn,“ lætur stjórnarformaðurinn þó hafa eftir sér.

Stuttort uppsagnarbréf í tölvupósti. Uppsögnin tekur þegar gildi, laun greiðast …
Stuttort uppsagnarbréf í tölvupósti. Uppsögnin tekur þegar gildi, laun greiðast ekki eftir 25. maí og lokað fyrir allan tölvuaðgang daginn eftir það. Ljósmynd/Úr einkasafni

Á miðvikudaginn í síðustu viku sagði Watkinson við Spaniaavisen, norskt blað og netmiðil sem ritstýrt er frá Torrevieja, að málið væri margþætt en ákvarðanir stjórnar skólans hefðu verið kynntar starfsfólkinu.

Lars Håndlykken og Iren Christensen kveðast verulega ósátt við málalyktir og segir Håndlykken engar aðgerðir á borð við þær sem gripið var til hafa virst á döfinni þegar þau fjölskyldan yfirgáfu Spán, sýkt af veirunni. „Þá sýndi rektor fullan skilning á því að við færum heim,“ segir hann að lokum.

NRK

VG

Spaniaavisen

Heimasíða Norska skólans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert