Rangar upplýsingar eru dauðans alvara

AFP

Hægt er að tengja upplýsingaóreiðu á netinu við árásir, íkveikjur og dauðsföll að undanförnu að sögn hóps sem vinnur við að staðreyna og fylgjast með upplýsingaóreiðu hjá BBC.

Að sögn sérfræðinga má búast við því að orðrómur, samsæriskenningar og rangar fréttir af heilbrigðismálum hafi mun meiri áhrif en hingað til hefur verið talið. 

Frétt BBC

„Við héldum að ríkisstjórnin væri að segja þetta til að afvegaleiða okkur,“ segir Brian Lee Hitchens, „Eða þetta tengist 5G þannig að við fylgdum hvorki reglunum né leituðum okkur aðstoðar strax,“ bætir hann við.

Brian, sem er 46 ára, ræddi við BBC í síma þar sem hann dvelur á sjúkrahúsi í Flórída. Eiginkona hans er á sama sjúkrahúsi  í öndunarvél á gjörgæsludeild en hún er með öndunarfærasjúkdóma. 

AFP

Eftir að hafa lesið samsæriskenningar á netinu töldu þau að fréttir af kórónuveirunni væru falsfréttir. Að minnsta kosti væri hún ekkert verri en hver önnur inflúensa. En í byrjun maí veiktust hjónin af COVID-19. „Og nú geri ég mér grein fyrir því að kórónuveiran er ekkert gabb,“ segir hann og nær vart andanum í símanum. 

Þrátt fyrir að heilbrigðisyfirvöld vöruðu fólk við töldu þau að þetta væri bara bull og Brian, sem er leigubílstjóri, mætti til vinnu líkt og venjulega. Hann fór í búðir og sótti lyf fyrir eiginkonu sína. Þrátt fyrir að hún sé í sérstökum áhættuhópi gættu þau ekki að sér. Þegar þau veiktust voru þau óþyrmilega minnt á hættuna sem fylgir COVID-19 og Brian ákvað að fara sjálfur á samfélagsmiðla, nú til þess að vara fólk við upplýsingaóreiðu og samsæriskenningum.  

Teymi hjá BBC hefur að undanförnu safnað saman upplýsingum um afleiðingar upplýsingaóreiðu um kórónuveiruna. Tugir slíkra mála hafa komið inn á þeirra borð, sum hafa aldrei áður komið fram í fjölmiðlum, og rætt við fólk sem þetta hefur haft áhrif á og heilbrigðisyfirvöld sem hafa reynt að staðreyna sögurnar. Áhrifa upplýsingaóreiðu gætir um allan heim, segir í ítarlegri frétt BBC um málið í gær.

Frétt BBC

Orðrómur á Indlandi leiddi til þess að æstur múgur gerði árás á lækna og múslima og fjölmargir veiktust af neyslu tréspíra í Íran. Fjarskiptafyrirtækjum hefur verið hótað og ofbeldi beitt gagnvart starfsmönnum. Kveikt hefur verið í fjarskiptamöstrum í Bretlandi og fleiri löndum vegna samsæriskenninga.

AFP

Hjón í Arizona eru meðal þeirra sem trúðu því sem þau heyrðu og lásu án þess að kanna sannleiksgildið frekar. 

Í lok mars fóru Wanda og Gary Lenius að heyra um lyfið hydroxychloroquine sem einkum er notað við malaríu en talið var af einhverjum að gæti gagnast við kórónuveirunni. Þau áttu lyfjaglas með sótthreinsitöflum sem voru svipaðar útlits ákváðu að taka „lyfið“ í öryggisskyni. 

Hydroxychloroquine getur hugsanlega virkað í baráttunni við veiruna en rannsóknir standa enn yfir og er því ósannað hvort það gagnast gegn COVID-19. 

Á mánudag frestaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin prófunum á lyfinu eftir að nýleg rannsókn sýndi að það gæti jafnvel aukið líkur á að sjúklingar myndu deyja af völdum COVID-19.

AFP

Strax í janúar fór af stað orðrómur um lyfið í Kína. Meðal annars birtu kínverskir ríkisfjölmiðlar færslur á samfélagsmiðlum um gamlar rannsóknir þar sem lyfið var reynt sem lyf gegn veirusýkingum.

Síðan birtust fregnir af franskri rannsókn þar sem lyfið átti að gefa góða raun. Þrátt fyrir að síðar hafi gildi rannsóknarinnar verið dregið í efa þá jókst áhugi fólks á hydroxychloroquine.

Ýmsir fjölmiðlar fjölluðu um lyfið og einnig áhrifamikið fólk eins og forstjóri Tesla, Elon Musk, og forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro. Eins var forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, tíðrætt um það á blaðamannafundum og á Twitter. 

„Hverju höfum við að tapa?“ skrifaði forsetinn á Twitter 3. apríl. „Takið það.“ Um miðjan maí gekk hann lengra og sagðist sjálfur fara að eigin ráðleggingum. Öll ummæli forsetans höfðu mikil áhrif á samfélagsmiðlum að því er mælingar Crowd Tangle sýna. 

AFP

Ofskömmtun lyfsins er afar fátíð en hræðslan vegna veirunnar hefur fengið fólk til að gera ótrúlegustu hluti segir í frétt BBC. 

Vegna fjölgunar innlagna á sjúkrahús í Nígeríu vegna eitrunar af völdum hydroxychloroquine varð til þess að heilbrigðisyfirvöld í Lagos gáfu út sérstaka viðvörun vegna lyfsins.

Í byrjun mars var Víetnami á fimmtugsaldri lagður inn á eitrunardeild sjúkrahúss í Hanoi eftir að hafa tekið of stóran skammt af malaríulyfinu chloroquine. Hann varð eldrauður, titraði og skalf og sá ekki í fókus. Dr Nguyen Trung Nguyen, framkvæmdastjóri sjúkrahússins, segir að það hafi bjargað lífi mannsins að hann fékk læknishjálp strax.

Gary Lenius var ekki svo heppinn því fiskabúrshreinsitöflurnar sem hann og Wanda blönduðu í gosdrykk innihélt annars konar efni og var eitrað. Aðeins nokkrum mínútum eftir að þau drukku hreinsiefnið fór þau að svima og varð heitt. Þau köstuðu upp og áttu í öndunarerfiðleikum. Gary lést en Wanda var lögð inn á sjúkrahús. Hún segir ástæaðuna fyrir því að þau drukku úr flöskunni vera þá að: „Trump var alltaf að segja að þetta væri nánast örugglega lækningin,“ segir hún.

AFP

Frétt NBC

Í Íran létust hundruð eftir að hafa drukkið tréspíra eftir að orðrómur fór af stað á netinu um lækningarmátt alkóhóls. Í lok apríl var dánartalan komin í 796 að sögn Kambiz Soltaninejad, yfirmanns Lyfjaeftirlits Írans. Hann segir ástæðuna fyrir andlátunum vera falsfréttir á samfélagsmiðlum. Ekki er víst að talan sé rétt þar sem alkóhól er bannað í Íran og því heimabrugg alengt og ekki ósennilegt að mun fleiri hafi látist.

AFP

Blaðamenn hjá BBC sáu orðróm um lækningarmátt alkóhóls á samskiptamiðlinum Telegram áður en stjórnvöld vöruðu við þessu og segir Shayan Sardarizadeh, sem er í BBC Monitoring disinformation teyminu, allt benda til þess að mun fleiri hafi látist.

Í einu tilviki sem BBC staðreyndi varð fimm ára drengur blindur eftir að foreldrar hans gáfu honum eitrað áfengi í þeirri von að það myndi lækna hann af veirunni.

AFP

Trump hefur velt fyrir sér ýmsum atriðum þegar kemur að lækningu af sjúkdóminum, svo sem klór og útfjólubláum geislum. Stutta svarið við þessari spurningu er einfaldlega þetta: Kraftmiklar aðferðir til að óvirkja veirur á ósértækan hátt, til dæmis með sterkum efnum eða orkuríkum geislum, eru líka til þess fallnar að skemma frumur líkamans. Fyrir þessu er sú einfalda ástæða að efnasamsetning lífvera og veira er náskyld að miklu leyti og eyðingarmáttur efnanna eða geislanna því keimlíkur.

Sjá nánar á Vísindavef Háskóla Íslands.

Trump sagði síðar að þetta hafi verið kaldhæðni en það voru ekki allir Bandaríkjamenn sem litu ummæli forseta landsins þeim augum og því fjölgaði mjög símtölum til neyðarlínunnar um hvað væri til ráða ef viðkomandi hefði innbyrt slík hreinsiefni.

Yfirvöld í Kansas fjölluðu meðal annars um einstakling sem hafði innbyrt sótthreinsisápu eftir blaðamannafund forsetans þar sem hann lét ummælin falla um mögulegan lækningarmátt sótthreinsiefna.

Dr. Duncan Maru, læknir við Elmhurst-sjúkrahúsið í New York, segir að starfsbræður hans hafi annast sjúklinga sem urðu alvarlega veikir eftir að hafa innbyrt sótthreinsiefni. Þetta geti haft langtímaáhrif, svo sem aukið líkur á krabbameini og magablæðingum. 

AFP

Samfélagsmiðlar hafa einnig verið gróðrarstía samsæriskenninga. Til að mynda hefur slíkur orðrómur valdið íkveikjum og árásum. Í Bretlandi hafa 70 fjarskiptamöstur verið eyðilögð vegna orðróms um að 5G-tæknin eigi á einhvern hátt þátt í veirunni. 

AFP

Einn þeirra sem slapp naumlega er Dylan Farrell, verkfræðingur hjá Openreach. Þar sem hann ók inn í hringtorg í Thurmaston, skammt frá Leicester, í lok vinnudags í síðasta mánuði heyrði hann öskur. Í fyrstu hélt hann að þessu væri beint að einhverjum öðrum en heyrði síðan öskrað 5G að sér. Þá áttaði hann sig á því að öskrin beindust að honum. „Þú ert ekki með neina siðferðiskennd,“ æpti maðurinn. „5G er að drepa okkur öll!“

AFP

„Ég efaðist ekki um það eina mínútu að hann hefði reynt að komast inn í bílinn og ráðist á mig ef ég hefði ekki læst hurðinni strax,“ segir Dylan. „Þetta var skelfilega ógnandi.“

Hann flýtti sér í burtu á fyrirtækisbílnum sem hann ók en enginn hefur verið handtekinn í tengslum við málið. 

Að sögn Claire Milne hjá Full Fact hafa komið fram margar samsæriskenningar varðandi 5G og kórónuveiruna.

Í svari á Vísindavefnum segir: Veiran sem veldur COVID-19 og 5G-fjarskiptanet eru tveir alveg ótengdir hlutir en sögusagnir um tengingu þarna á milli hafa þó komist á kreik. 5G-fjarskiptanet er ný (fimmta) kynslóð fjarskiptatækni þar sem notuð er rafsegulgeislun. OrsökCOVID-19 er veira sem smitast fyrst og fremst með dropa- og snertismiti á milli manna, til dæmis þegar fólk hnerrar eða hóstar og dropar með veirunni berast á okkur eða hluti í umhverfinu.

AFP

Eitt af því sem framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus, varaði snemma við í faraldrinum er hætta á rasískum árásum. Einkum varaði hann við árásum á Kínverja og aðra Asíubúa.

Á Indlandi hefur verið ráðist á múslima, þar á meðal þrjá múslima í höfuðborginni, í kjölfar þess að orðrómur fór á kreik á samfélagsmiðlum um að múslimar dreifðu veirunni. Mennirnir voru barðir til óbóta. Í indversku þorpi kom til átaka á milli gengja eftir að ráðist var á ungan dreng sem er múslimi af sömu ástæðu. Einn lést og annar særðist alvarlega í átökum gengjanna.

AFP

Fleiri slíkar falsfréttir hafa farið víða. Til að mynda var orðrómur um það í Bradford á Englandi að litaðir sjúklingar fengju ekki læknisþjónustu og væru látnir deyja. Á Indlandi var ráðist á lækna sem voru við sýnatöku þar sem orðrómur fór af stað um að læknar væru að fjarlægja múslima og sýkja þá af veirunni. Tveir læknar særðust alvarlega í slíkum árásum.

Hér er hægt að lesa nánar um upplýsingaóreiðu.

Frétt BBC í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert