„Ég hef aldrei upplifað annað eins“

Jørn Erik Henriksen heldur á örvaroddi, einum gripanna sem hópur …
Jørn Erik Henriksen heldur á örvaroddi, einum gripanna sem hópur fornleifafræðinga á vegum háskólaminjasafnsins í Tromsø hefur grafið upp í kumli frá 10. öld sem fannst undir gólfi íbúðarhúss í Nordland í Noregi fyrr í mánuðinum. Henriksen segist aldrei hafa upplifað að finna slíkar fornminjar undir heimili fólks. Ljósmynd/Norges arktiske universitetsmuseum í Tromsø

„Þetta er mjög sérstakur uppgröftur og það er ekki bara vegna staðsetningar grafarinnar, undir þessu íbúðarhúsi, get ég sagt þér,“ segir Jørn Erik Henriksen, fornleifafræðingur við Háskólann í Tromsø, í samtali við mbl.is. Umræðuefnið er kuml frá tíundu öld sem þau Mariann Kristiansen og maður hennar fundu fyrir hreina tilviljun undir húsi sínu í Saltstraumen, skammt frá Bodø í Nordland-fylki í Noregi, fyrr í mánuðinum, þegar þau rifu upp gólf gamla ættaróðalsins hennar til að koma fyrir einangrun undir því.

Henriksen, sem hefur stýrt vinnu fornleifafræðinga á staðnum, segist sérstaklega ánægður með viðbrögð íbúanna sem voru hárrétt og í samræmi við norsk fornminjalög. „Þau tilkynntu fylkisyfirvöldum þegar í stað um fund sem hugsanlega hefði menningarsögulegt gildi og þá fór allt í gang. Nordland-fylki, UM, það erum við frá Tromsø [Norges arktiske universitetsmuseum, Háskólaminjasafn Noregs norðan heimskautsbaugs er tilraun til þýðingar] og þjóðminjavörður lögðu sig í framkróka um að rannsóknin stæðist faglegar kröfur í hvívetna,“ segir Henriksen um fyrstu skref aðgerða á vettvangi.

Ótrúlega sérstök upplifun

Hann segir þjóðminjavörð hafa tryggt rannsókninni 483.000 krónur (rúmar 6,7 milljónir íslenskra króna) í samræmi við kostnaðaráætlun sem háskólasafnið í Tromsø setti niður. Þannig hafi rannsóknin getað farið fram þannig að íbúar hússins yrðu fyrir sem minnstu ónæði og töfum við eigin framkvæmdir á heimilinu.

Henriksen segir ljóst að kumlið hafi orðið fyrir miklu hnjaski …
Henriksen segir ljóst að kumlið hafi orðið fyrir miklu hnjaski á óljósum tíma, þó löngu áður en framkvæmdir hófust við byggingu hússins sem langafi Mariann Kristiansen byggði árið 1914. Sem dæmi um það séu mörg bein kumlbúans brotin auk þess sem beinagrindin liggi ekki í eðlilegri anatómískri stöðu í gröf sinni. Ljósmynd/Norges arktiske universitetsmuseum í Tromsø

„Ég hef aldrei upplifað annað eins,“ segir fornleifafræðingurinn sem stendur á fimmtugu og býr yfir 30 ára reynslu í fagi sínu. „Fyrir mig er það ótrúlega sérstök upplifun að taka þátt í uppgreftri í kumli frá víkingatímanum undir húsgólfi í frábæru samstarfi við gestrisna, áhugasama og mjög þolinmóða íbúa,“ segir hann enn fremur um nábýlið við þau Kristiansen og mann hennar.

Loks kemur Henriksen að því sem er svo sérstakt við kumlið annað en að það hafi fundist undir íbúðarhúsi. „Við sjáum það núna að gröfin hefur orðið fyrir einhverjum utanaðkomandi áhrifum sem ollu verulegum spjöllum á henni. Þetta hefur gerst löngu áður en húsið var byggt árið 1914,“ útskýrir hann.

Öxinni fleygt út úr gröfinni?

„Þetta sést berlega af því að sumir hlutanna sem við fundum lágu ofar en leifarnar af beinagrindinni og voru í raun nánast á því sem var yfirborð jarðar þarna á staðnum árið 1914. Beinin eru meira og minna brotin og beinagrindin liggur að mjög litlu leyti í eðlilegri anatómískri stöðu,“ segir Henriksen og kveður ýmsa hluti, sem fornleifafræðingarnir hafi fundið, einnig hafa orðið fyrir tjóni.

Þessi hnífur er að sögn fornleifafræðingsins einn fárra heillegra gripa …
Þessi hnífur er að sögn fornleifafræðingsins einn fárra heillegra gripa sem fundist hafa í kumlinu. Ljósmynd/Norges arktiske universitetsmuseum í Tromsø

„Við fundum til dæmis bara brot af greiðu úr hjartarhorni og sumum öðrum gripum virðist hafa verið fleygt út úr gröfinni, til dæmis öxinni,“ segir hann og á við öxi eða axarblað úr járni sem fannst utan við sjálft kumlið. Hann segir lítinn hníf þó hafa fundist í nánast heilu lagi.

Húsráðendur tóku þessa mynd af öxi úr járni sem Henriksen …
Húsráðendur tóku þessa mynd af öxi úr járni sem Henriksen segir að virðist sem kastað hafi verið út úr gröfinni á þeim tíma sem henni var raskað. Það gæti hafa gerst skömmu eftir greftrun eða á tíma næstu kynslóða sem uppi voru á undan þeirri sem byggði húsið árið 1914. Hugsanlega verði þeirri spurningu þó aldrei svarað. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við teljum kumlið vera frá síðari hluta víkingatímans, frá því um miðja 10. öld, en nánari rannsóknir á gripunum auk kolefnisaldursgreiningar mun vonandi varpa skýrara ljósi á aldurinn. Þær spurningar sem við nú stöndum frammi fyrir snúa meðal annars að því hvenær sá atburður hafi orðið sem olli þessari röskun á gröfinni. Vel má vera að þeim verði aldrei svarað, hvort þarna hafi eitthvað gerst skömmu eftir greftrunina eða hugsanlega á dögum einhverra síðustu kynslóðanna sem uppi voru á undan þeim sem byggðu húsið árið 1914,“ segir Jørn Erik Henriksen, fornleifafræðingur við Háskólann í Tromsø, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert