Efnahagsástandið ekki verið verra í rúm 70 ár

Menn sjást hér ganga fram hjá veitingastað í miðborg Rómar …
Menn sjást hér ganga fram hjá veitingastað í miðborg Rómar sem hefur verið lokað. AFP

Kórónuveirufaraldurinn hefur lagst þungt á ítalskt efnahagslíf en Ítalir standa frammi fyrir verstu efnahagsörðugleikum frá seinni heimsstyrjöldinni. 

Væntingavísitalan í landinu í maí, sem er þriðja stærsta hagkerfi evrusvæðisins, hefur ekki verið lægri frá því ítalska hagstofan hóf slíkar mælingar í mars árið 2005.

Confesercenti, samtök lítilla og meðalstórra fyrirtækja, segir að þetta vera sláandi. Samtökin segja að faraldurinn og kreppan hafi sett fjölmörg fyrirtæki í þrot, þá sérstaklega minni verslanir og fyrirtæki í ferðaþjónustu. 

Félagar í samtökunum hafa sérstaklega miklar áhyggjur af skorti á lausafé svo fyrirtæki geti greitt ýmiss konar kostnað og laun starfsfólks. Þess er krafist að stjórnvöld bregðist hratt við til að létta undir með atvinnurekendum. 

Þau segja að það verði að draga úr allri skriffinnsku og einfalda alla ferla, því mörg fyrirtæki standi frammi fyrir því að geta ekki haldið áfram verði ekki gripið til aðgerða þegar í stað. 

Ítalska ríkisstjórnin gagnrýndi í síðustu viku bankastofnanir í landinu fyrir að bregðast of hægt við ástandinu. Talsmenn bankanna segja aftur á móti að þeir hafi þegar afgreitt yfir 400.000 lánabeiðnir að andvirði 18 milljarða evra, sem jafngildir um 2.700 milljörðum kr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert