„Með kökk í hálsinum yfir þessu“

Eyðileggingin er gríðarleg í Minnesota, þar sem áköf mótmæli hafa …
Eyðileggingin er gríðarleg í Minnesota, þar sem áköf mótmæli hafa staðið yfir í vikunni, sem hófust sem viðbragð við dauða George Floyd í höndum lögreglu. AFP

„Þetta er rosalegt. Maður er bara með kökk í hálsinum yfir þessu, að þessi fallega og friðsæla borg sé komin á þennan stað. Ég átti von á mótmælum en svona svakaleg skemmdarverk eru algerlega á skjön við það sem maður sá fyrir sér,“ segir Katrín Sigurðardóttir, íslenskur hjúkrunarfræðingur búsettur í Minneapolis í Minnesota. Katrín er kjörræðismaður Íslands í ríkinu.

Katrín Sigurðardóttir er kjörræðismaður Íslands í Minnesota.
Katrín Sigurðardóttir er kjörræðismaður Íslands í Minnesota. Ljósmynd/Aðsend

Katrín er eins og aðrir slegin yfir því alvarlega ástandi sem gripið hefur um sig í borginni og lýsir því í samtali við mbl.is. 

Eftir að mótmæli brutust út í upphafi viku vegna andláts George Floyd, 46 ára þeldökks Bandaríkjamanns sem lést í kjölfar slæmrar meðferðar lögreglu, hefur ástandið versnað til muna frá degi til dags í borginni. Gríðarlegur fjöldi mótmælenda hefur brotið og bramlað allt frá pósthúsum og lögreglustöðvum til bókasafna og matvöruverslana. Enn sem komið er, er aðeins einn sagður látinn í óeirðunum, en hann var skotinn af búðareiganda þegar hann reyndi að brjótast þar inn.

Katrín býr í úthverfi suðvestur af helsta átakasvæðinu, en útgöngubann sem fyrst gilti aðeins um verstu svæðin hefur verið víkkað út þangað sem hún býr. Eftir átta í kvöld má hún því ekki fara út úr húsi.

Árhundruð af kúgun að brjótast fram 

Þó að Katrín standi þannig að vissu leyti utan við átökin fylgist hún náið með þróuninni eins og allir á svæðinu. Að hennar sögn hefur þetta farið snarversnandi síðustu tvo daga.

„Þetta eru innbrot, skemmdarverk og íkveikjur sem teygja sig eftir endilangri Lake Street og víðar. Það er ansi stórt svæði og það er þess vegna sem lögreglan hafði ekkert í þetta í gær, þrátt fyrir mikinn liðsstyrk,“ segir Katrín og vísar þar til aðalgötunnar í bænum, sem gengur í gegnum mörg ólík hverfi.

Mótmælin hafa sótt í sig veðrið síðustu tvo daga og …
Mótmælin hafa sótt í sig veðrið síðustu tvo daga og þjóðvarðlið er á staðnum. Fjöldi fólks hefur verið handtekinn. AFP

Mótmælin hófust sem fyrr segir vegna dauða George Floyd en Katrín segir að í kjölfarið hafi undirliggjandi reiði brotist út. „Þetta eru áratugir og árhundruð af kúgun sem brjótast þarna fram. Þó að þetta ríki sé mjög fjölþjóðlegt og þó að hér sé löng hefð fyrir því að taka á móti flóttamönnum úr öllum áttum er mikið bil á milli hvítra og annarra hópa, í menntun, atvinnu og í lífsgæðum almennt,“ segir hún.

Áberandi í mótmælunum er Black Lives Matter-hreyfingin, sem berst meðal annars gegn lögregluofbeldi.

Ofan á þetta eru Bandaríkin í einni verstu efnahagskreppu síðari tíma og margir sem hafa orðið illa úti vegna kórónukreppunnar líklegir til þess að fjölmenna á mótmæli gegn misrétti. „Efnahagsáfallið lenti auðvitað ójafnt á fólki eftir hópum og fólk sem til dæmis vann á veitingastöðum eða slíku hefur verið tekjulítið síðustu mánuði. Undir niðri var sú örvænting því þegar tekin að grípa um sig,“ segir Katrín.

Bjartsýn á kvöldið í kvöld

Stjórnvöld hafa skiljanlega reynt að gera allt sem í valdi þeirra stendur til þess að koma böndum á mótmælin. Hingað til hafa þau ekkert gert nema versnað, en Katrín kveðst binda vonir við að þetta skáni í kvöld. Yfir daginn sé fjöldi fólks í bænum að leitast við að bæta ástandið þar, bæði með því að gefa mótmælendum að borða og hlúa að þeim sem særast, og um leið með því að hreinsa til eftir átökin.

Fólk hjálpast að á daginn við að koma ástandinu í …
Fólk hjálpast að á daginn við að koma ástandinu í betra horf. Eftir að útgöngubann skellur á, á fólk að halda sig heima. AFP

Katrín segir að ríkisstjórinn, Tim Walz, hafi safnað fjölda leiðtoga saman á fjölmiðlafund í dag, þar sem fólk var hvatt til þess að mæta í bæinn yfir daginn en fara svo heim um kvöldið.

„Það er enn mikil óvissa en ég er bjartsýn um kvöldið í kvöld. Þegar fólk hefur komið saman yfir daginn og fólk heyrir að það séu hópar sem séu að reyna að misnota þessa ringulreið til þess að æsa upp fólk og koma óorði á staðinn, þá held ég að þetta geti róast,“ segir hún að lokum.

Katrín hefur búið í Minneapolis frá 2011 en var áður í Boston frá 1999. Hún býr með eiginmanni sínum, Tjörva Perry lækni, og börnum þeirra þremur.  

mbl.is