Vísindamenn í Bretlandi uggandi

Fólk á ferðinni eftir Oxford-stræti í London í veðurblíðunni í …
Fólk á ferðinni eftir Oxford-stræti í London í veðurblíðunni í gær. AFP

Breskir vísindamenn segja að það sé of snemmt að hefja afléttingu á þeim samkomutakmörkunum sem hafa verið í gildi í landinu vegna kórónuveirufaraldursins. Bresk stjórnvöld hafa boðað breytingar í næstu viku.

Prófessorinn John Edmunds segir að það sé pólitísk ákvörðun að draga úr þeim hömlum sem hafa verið í gildi undanfarnar vikur og mánuði. Jeremy Farrar, framkvæmdastjóri góðgerðarstofnunarinnar Wellcome Trust, sem fjármagnar rannsóknir í heilbrigðismálum, segir að smitrakning og sýnatökur breska heilbrigðiskerfisins eigi að vera starfandi á fullum hraða. 

Frá og með næsta mánudegi verða skólar opnaðir á nýjan leik og alls sex einstaklingar mega hittast í einu á Englandi. Önnur ríki munu einnig hefja afléttingu á þeim takmörkunum sem hafa verið í gildi í næstu viku. Fjallað er um málið á vef BBC. 

Sumir hafa áhyggjur af því að verið sé að draga …
Sumir hafa áhyggjur af því að verið sé að draga úr sóttvarnaaðgerðum of snemma. Það sé þá gert í þágu efnhagslífsins en ekki í þágu almannaheilla. AFP

Talsmenn bresku stjórnarinnar segja að hún hafi fylgt öllum ráðum og vísindalegum gögnum sem liggja fyrir varðandi faraldurinn. 

Vísindamenn segja að staðan sé enn mjög viðkvæm og enn sé mikið um smit í landinu. Menn vilji því fara að öllu með gát og sjá kúrfuna þokast neðar áður en gripið verði til umfangsmeiri aðgerða og draga úr þeim hömlum sem verið hafa í gildi í sóttvarnaskyni. 

Það að hafa áfram strangar reglur í gildi um sóttvarnir í tvær vikur sé betri kostur en að missa tökin komi upp alvarlegt bakslag í baráttunni við veiruna. 

mbl.is