Belgíuprins kemur sér í vandræði

Jóakim Belgíuprins.
Jóakim Belgíuprins.

Jóakim prins í Belgíu hefur greinst með kórónuveiruna eftir að hafa verið viðstaddur samkvæmi meðan á samkomubanni stóð á Spáni. Frá þessu greinir belgíska konungshöllin. 

Jóakim, sem er 28 ára gamall, ferðaðist frá Belgíu til Spánar 26. maí vegna starfsnáms. Tveimur dögum síðar mætti hann í gleðskap í borginni Córdoba á suðurhluta Spánar. Hann hefur nú greinst með veiruna.

Fram kemur í spænskum fjölmiðlum að Jóakim, sem er frændi Filippusar konungs Belgíu, hafi verið á með 27 gesta í samkvæminu.  

Samkvæmt gildandi reglum í Córdoba braut þetta í bága við gildandi samkomubann, þ.e. að aðeins megi í mesta lagi 15 koma saman í einu, að því er segir á vef BBC.

Spænska lögreglan rannsakar nú málið. Verði gestirnir fundnir sekir um að brjóta reglurnar geta þeir átt vona á um 10.000 evra sekt, sem samsvarar um einni og hálfri milljón króna. 

Allir gestirnir eru nú sagðir vera í sóttkví. Jóakim prins, sem er yngsti sonur Ástríðar prinsessu og sá tíundi í krúnuröðinni, er sagður hafa fengið væg einkenni kórónuveirunnar. 

Rafaela Valenzuela, fulltrúi héraðsstjórnarinnar í Córdoba, fordæmdi hegðun gestanna í samkvæminu og sagði að þeir hefðu sýnt af sér mikið ábyrgðarleysi. 

„Ég er svo hissa og reið. Svona atvik stendur nú upp úr á tíma þegar þjóðarsorg ríkir vegna allra þeirra sem hafa látist,“ sagði hún. 

mbl.is