Ekkert annað en „morð að yfirlögðu ráði“

Lögfræðingur fjölskyldu George Floyds, sem lést eftir að lögreglumaður kraup á hálsi hans, segir að um morð að yfirlögðu ráði hafi verið að ræða. 

Fjórum lögreglumönnum sem voru viðstaddir handtökuna var vikið úr starfi skömmu eftir andlát Floyds og einn þeirra, Derek Chauvin, hefur verið ákærður fyr­ir mann­dráp þegar hann beitti Floyd, sem var 46 ára gam­all, hörku við hand­töku í Minn­ea­pol­is sl. mánu­dag. 

Benjamin Crump, lögmaður fjölskyldu Floyds, vill að Chauvin verði ákærður fyrir morð að yfirlögðu ráði í stað manndráps. „Hann gerði þetta af ásetningi. Hann kraup á hálsi hans í nánast níu mínútur á meðan hann þrábað um hjálp,“ segir Crump í samtali við CBS-fréttastofuna. Hann bendir sérstaklega á að Chauvin hélt áfram að krjúpa á hálsi Floyd í um þrjár mínútur eftir að hann missti meðvitund. „Við skiljum ekki af hverju er ekki litið á það sem morð að yfirlögðu ráði,“ segir Crump. 

„Kannski ættum við að leggja hann á hliðina?“

Chauvin kemur fyrir dómara á morgun. Crump hefur fengið aðgang að myndefni úr myndavélum lögreglumannanna þar sem einn lögreglumaðurinn heyrist segja: „Hann er ekki með púls, kannski ættum við að leggja hann á hliðina?“ Þá heyrist Chauvin svara: „Nei, við höldum honum í þessari stöðu.“ 

Fjölmenn mótmæli hafa brotist út víðs vegar um Bandaríkin í kjölfar dauða Floyds og hafa stigmagnast í ein­hverja mestu óeirðaöldu sem gengið hef­ur yfir í Banda­ríkj­un­um á síðustu árum. Tug­ir þúsunda hafa flykkst út á göt­ur Minn­ea­pol­is síðustu daga þrátt fyr­ir út­göngu­bann, sem var til komið vegna mót­mæl­anna, en ekki kór­ónu­veiru.

Að upp­lagi er verið að mót­mæla lög­reglu­of­beldi en við hóp mót­mæl­enda hef­ur bæst fjöldi fólks bæði frá Minnesota en einnig frá öðrum stöðum í Banda­ríkj­un­um. Yf­ir­völd í Minnesota hafa hand­tekið fjölda manns og segja flesta hinna hand­teknu vera komna að utan. Búist er við að mótmælin haldi áfram í kvöld, sjötta kvöldið í röð, og eru þau farin að teygja sig út fyrir landsteinana, meðal annars til Danmerkur og Bretlands. 

Fjölmenn mótmæli hafa brotist út víðs vegar um Bandaríkin í …
Fjölmenn mótmæli hafa brotist út víðs vegar um Bandaríkin í kjölfar dauða Floyds og hafa stigmagnast í ein­hverja mestu óeirðaöldu sem gengið hef­ur yfir í Banda­ríkj­un­um á síðustu árum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert