Fleiri látnir úr veirunni en búa á Íslandi

Faraldurinn er hvað skæðastur þessa stundina í Brasilíu en þar …
Faraldurinn er hvað skæðastur þessa stundina í Brasilíu en þar létust 956 síðasta sólarhringinn af völdum COVID-19. AFP

Kórónuveiran hefur orðið 370.261 að bana á heimsvísu. Það eru fleiri en búa á öllu Íslandi en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni voru landsmenn rúmlega 364 þúsund í byrjun árs. 

Alls hafa 6.113.340 smitast í 196 ríkjum frá því veiran braust út í Kína í lok síðasta árs. Af þeim hafa að minnsta kosti 2,5 milljónir náð fullum bata. 

Uppsöfnuð dauðsföll eru flest í Bandaríkjunum eða 104.051 talsins. Tæplega 1,8 milljónir hafa smitast þar í landi. Þar á eftir koma Bretland með 38.489 dauðsföll, Ítalía með 33.415 og Brasilía með 28.834.

Faraldurinn er hvað skæðastur þessa stundina í Brasilíu, Bandaríkjunum og Mexíkó. Alls létust 956 af völdum veirunnar í Brasilíu síðasta sólarhringinn, 698 í Bandaríkjunum og 364 í Mexíkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert