Grunaður um að hafa myrt móður sína

Bergen á vesturströnd Noregs. Kona á sextugsaldri fannst látin á …
Bergen á vesturströnd Noregs. Kona á sextugsaldri fannst látin á eynni Lillesotra, um tíu kílómetra vestur af borginni, í gærkvöldi og situr sonur hennar í haldi lögreglu, grunaður um að hafa orðið henni að bana. Ljósmynd/Wikipedia/Tomoyoshi NOGUCHI

Maður á þrítugsaldri er í haldi lögreglunnar í Bergen í Noregi, grunaður um að hafa myrt móður sína, sem var á sextugsaldri, á heimili hennar í Brattholmen á eynni Litlesotra vestur af Bergen í gærkvöldi.

Lögregla greindi frá málinu á blaðamannafundi nú fyrir skömmu. Sagði Christine Møen Wisløff, lögmaður vesturumdæmis lögreglunnar, að lögreglunni hefði borist tilkynning um látna manneskju í íbúð á Sotra klukkan 20:37 í gærkvöldi, 18:37 að íslenskum tíma, og kom fyrsta lögreglubifreiðin á vettvang ellefu mínútum síðar.

Skömmu síðar, eða klukkan rúmlega 21, var sonurinn handtekinn og hefur stöðu grunaðs í málinu. Hann hefur þó ekki verið yfirheyrður enn sem komið er.

Baðst undan yfirheyrslu

„Ein af kenningum lögreglunnar er að um manndráp sé að ræða en við vinnum þó út frá fleiri kenningum og viljum ekki hengja okkur á eina þeirra umfram aðra á meðan rannsóknin er svo skammt á veg komin,“ sagði Wisløff á blaðamannafundinum.

Sonurinn var ekki handtekinn á vettvangi og kýs lögregla að upplýsa ekki hvar handtakan fór fram. Hann baðst undan yfirheyrslu í gærkvöldi og bar við þreytu og var yfirheyrslum því frestað þar til í dag. Lögregla hefur rætt við nokkur vitni, þar á meðal nágranna hinnar látnu, og hafa tæknimenn verið við rannsóknir á vettvangi í alla nótt.

Lögregla hefur ekki tekið ákvörðun um hvort gæsluvarðhalds verði krafist yfir manninum í kjölfar handtökunnar.

NRK

VG

Bergens Tidende

mbl.is