Sænsk blaðakona skotin með gúmmíkúlu

Nina Svanberg, fréttaritari sænska dagblaðsins Expressen í Bandaríkjunum, var skotin …
Nina Svanberg, fréttaritari sænska dagblaðsins Expressen í Bandaríkjunum, var skotin niður á vígvellinum í Minneapolis um helgina en lét það ekki á sig fá heldur hélt ótrauð áfram störfum. Ritstjóri Expressen segir útilokað að lögregla hafi ekki gert sér ljóst að hún beitti táragasi og gúmmíkúlum gegn hópi fjölmiðlafólks og segir fjölmiðlafrelsi augljóslega eiga undir högg að sækja í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Nina Svanberg

Sænska blaðakonan Nina Svanberg, fréttaritari Expressen í Bandaríkjunum, varð fyrir gúmmíkúlu lögreglu þar sem hún stóð í eldlínu óeirða í borginni Minneapolis um helgina. Svanberg var stödd í hópi greinilega auðkennds fjölmiðlastarfsfólks sem lögregla beitti gúmmíkúlum og táragasi gegn.

„Ég var þarna í hópi með fjölda blaða- og fréttamanna frá mörgum löndum, þarna var meðal annars Thomas Nilsson, ljósmyndari frá [norska dagblaðinu] VG og fjöldi annarra,“ segir Svanberg í samtali við mbl.is í dag, en aðfaranótt laugardags öðlaðist hún þá lífsreynslu á götu í Minneapolis að vera skotin niður með gúmmíkúlu óeirðalögreglu auk þess sem táragasi var dælt yfir fréttamannahópinn.

Öll með blaðamannaskírteini

„Við vorum þarna skammt frá lögreglustöð ásamt hópi mótmælenda þegar lögregla og þjóðvarðlið komu fylktu liði á móti okkur,“ segir Svanberg frá atburðarásinni þarna um nóttina. „Það var engum málum blandið að þarna var hópur fjölmiðlafólks á ferð, stórar myndavélar voru á lofti auk þess sem við vorum öll með blaðamannaskírteinin sýnileg utan á okkur,“ segir Svanberg. Skiptir þá engum togum að gúmmíkúla úr vopnabúri lögreglunnar hæfir blaðakonuna í lærið þannig að hún fellur nánast í götuna.

„Ég fann þungt högg á lærið og hrundi bara niður,“ segir Svanberg. Segir hún fréttamannahópinn þá hafa forðað sér þrátt fyrir að skyggni væri takmarkað þar sem mörg hylki af táragasi skullu niður allt í kring og úðuðu innihaldi sínu um stræti og torg. Nilsson ljósmyndari segir enn fremur frá því í VG í dag að hann hafi séð rauðan díl leysigeislasigtis á kvið sér og tekið til fótanna.

Svanberg segist hafa komist í var ásamt hópi ástralskra fréttamanna og hafi þau beðið af sér verstu orrahríðina. Hún er búsett í New York og var því gestkomandi í atvinnuskyni í Minneapolis um helgina. Hvað gerðist þá eftir þessa atlögu lögreglunnar, fór Svanberg vígamóð á hótel sitt og tók á sig náðir?

„Nei nei, við héldum bara áfram að vinna, tókum fjölda viðtala við mótmælendur og eins fólk sem býr þarna í nágrenninu þar sem við vorum,“ svarar Svanberg borubrött enda með 17 ára reynslu í fagi sínu og ættuð að norðan, kemur frá Norrbotten í nyrstu véum Svíþjóðar sem á landamæri að Finnlandi.

Keyrði um þverbak í New York

Hvernig hefur þróunin verið í Bandaríkjunum eftir að mótmælin og óeirðirnar vegna andláts George Floyds hófust? Sér ekkert fyrir endann á skálmöldinni?

„Það er mjög erfitt að meta það, ástandið hefur verið mjög eldfimt, til dæmis í New York í gær, þar keyrði alveg um þverbak í látum,“ segir Svanberg að lokum en hún hefur gegnt starfi fréttaritara Expressen í Bandaríkjunum frá áramótum.

Svanberg er blá og marin eftir kúluna. Hún féll við …
Svanberg er blá og marin eftir kúluna. Hún féll við þegar skotið hæfði hana en tókst þó að komast í var. Svanberg segir erfitt að meta hvort öldurnar sé að lægja í þeirri vargöld sem Bandaríkjamenn hafa búið við síðustu dægur. Ljósmynd/Nina Svanberg

Klas Granström, ritstjóri Expressen, segir í samtali við VG í dag (sami hlekkur og ofar í fréttinni) að lögregla hefði ekki átt að vera í nokkrum vafa um að Svanberg væri blaðamaður. „Hún var augljóslega auðkennd sem fjölmiðlamanneskja,“ segir Granström og bætir því við að atburðir á borð við þennan komi á óvart í lýðræðisríki.

„Það er algjörlega óviðunandi að blaðamenn lendi í skotlínunni eins og þarna gerðist. Þetta er skelfilegt mynstur,“ segir ritstjórinn og skýrir mynsturhugtakið með því að þarna sé ekki um einangrað tilfelli að ræða, fleiri svipuð hafi komið upp.

„Af því sem við sjáum núna getum við eingöngu dregið þá ályktun að frelsi fjölmiðla eigi undir högg að sækja í Bandaríkjunum,“ segir Granström við VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina